Litli skógur

Litli Skógur er útivistarsvæði í Sauðárgili á Sauðárkróki. Þar er mikill gróður og stígar sem hægt er að kanna. Í Litla Skógi er skjólsælt og gróðursælt og gott að vera. Ofan í Sauðárgilinu liggur Sauðáin og liggja göngustígarnir með fram ánni og þrjár brýr yfir hana á mismunandi stöðum. Í skóginum er einnig vísir að nestis- og grillaðstöðu og nokkur líkamsræktartæki.

Í Litla Skógi er líka að finna rústir gömlu sundlaugarinnar. Ungmennafélagið Tindastóll hlóð sundlaug í norðanverðu Sauðárgili árið 1911. Laugin hefur nýlega verið endurhlaðin. Í Sögu Sauðárkróks segir:  "Reyndist sundpollurinn allvel í fyrstu. Vatni var veitt úr Sauðánni í sundstæðið sem var alldjúpt eða rúmlega faðmur þar sem dýpst var. En vatnið var ískalt, og urðu nemendur oft að gera margar atrennur áður en þeir þoldu við niður í því. Var kennslu fram haldið í Sundpollinum í Sauðárgili í tuttugu ár eða jafnvel lengur."

 

 Mynd Litliskógur