Umhverfis- og samgöngunefnd

5. fundur 08. september 2022 kl. 15:00 - 17:00 að Borgarteigi 15, Sauðárkróki
Nefndarmenn
  • Hrefna Jóhannesdóttir formaður
  • Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir varaform.
  • Sveinn Þ. Finster Úlfarsson aðalm.
  • Hildur Þóra Magnúsdóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Steinn Leó Sveinsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs
Fundargerð ritaði: Steinn Leó Sveinsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs
Dagskrá

1.Fundagerðir Hafnasambands Ísl 2022

2201005

Fundagerðir Hafnarsambandsins frá fundum nr. 443 og 444 lagðar fram til kynningar.

2.Verkefni vegna innleiðingar hringrásarkerfis

2111021

Á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga þann 25. mars 2022 var fjallað um hagsmunagæslu Sambandsins í úrgangsmálum og eftirfarandi bókað og samþykkt:
„Stjórn sambandsins fagnar því að átak um Hringrásarhagkerfið sé farið af stað og hvetur sveitarfélög til að nýta sér þá aðstoð sem í því felst. Það er skammur tími til stefnu til að innleiða nýjar kröfur um úrgangsstjórnun sveitarfélaga og mikilvægt að sveitarfélög horfi til frekara samstarfs um þau verkefni sem framundan eru.“
Umhverfis- og samgöngunefnd þakkar fyrir hvatninguna og samþykkir að vinna áfram að framgangi málsins.

3.Fyrirspurn vegna Kleifatún 2

2205007

Málið tekið fyrir og rætt á fundi byggðarráðs 11. maí síðastliðinn sem samþykkti þá að vísa erindinu til umhverfis- og samgöngunefndar vegna úttektar á umferðaröryggi við Túngötu og þeirra aðgerða sem ráðast á í að úttekt lokinni. Afstaða byggðarráðs til erindisins að öðru leyti verður tekin þegar úttekt og öryggisráðstafanir munu liggja fyrir.
Fyrir liggja drög verkfræðistofunnar Eflu að bættu umferðaröryggi við Túngötu á Sauðárkróki. Tillagan miðar að því að hægja á umferð um götuna en leyfður hámarkshraði er 30 km á klukkustund. Reynslan er hinsvegar sú að virkur hraði í götunni er talsvert hærri sem leiðir af sér hættu fyrir íbúa og vegfarendur. Merking og málun gangbrauta hefur sýnt sig í að vera hraðatakmarkandi aðgerð og leggur Efla til að 7-8 þveranir verði merktar og upplýstar, þar af verði 2 uppbyggðar hraðahindranir.
Umhverfis- og samgöngunefnd samþykkir tillögu Eflu og felur sviðsstjóra að láta hanna, teikna upp og kostnaðarmeta aðgerðapakkann. Umhverfis- og samgöngunefnd telur framangreind áform til bætts umferðaröryggis taka á yfirvofandi hættu aðliggjandi húsa við Túngötu á Sauðárkróki.

4.VHL - Birkimelur áfangi 1, 2022

2202029

Skrifað var undir samning um verkið við Víðimelsbræður ehf. þann 30. ágúst síðastliðinn. Um er að ræða um 150 m lengingu götunnar til suðurs og bætast þar með við 3 parhúsalóðir, 3 einbýlishúsalóðir og ein fjögurra íbúða raðhúsalóð. Framkvæmdir við verkið eiga að hefjast í byrjun september og gert er ráð fyrir að verklok við þennan áfanga verði í lok október næstkomandi.
Umhverfis- og samgöngunefnd fagnar því að þessi áfangi sé kominn á framkvæmdastig og óskar íbúum Varmahlíðar til hamingju með að möguleiki á stækkun byggðarinnar er að verða að veruleika.

5.Styrkir vegna fordæmisgefandi dómsmála

2206312

Aðildarhafnir Hafnasambands Íslands geta óskað eftir fjárhagsstuðningi til Hafnasambandsins til að mæta kostnaði við rekstur dómsmála enda sé líklegt að niðurstaða málsins feli í sér fordæmisgefandi niðurstöðu fyrir aðrar hafnir. Reglur þess efnis voru samþykktar á stjórnarfundi Hafnasambands Íslands 14. júní 2022 og tóku þegar gildi.
Málið lagt fram til kynningar.

6.Ársfundur náttúruverndarnefnda

2206337

Ársfundur náttúruverndarnefnda verður haldinn í Grindavík þann 10. nóvember næstkomandi. Að undirbúningi fundarins koma, auk Umhverfisstofnunar, Samtök íslenskra sveitarfélaga og Samtök náttúrustofa. Á fundinum verður m.a. farið yfir hlutverk náttúruverndarnefnda, fjallað um hlutverk Umhverfisstofnunar, Samtök íslenskra sveitarfélaga og Samtök náttúrustofa, auk þess að fjalla um náttúruverndarmál. Skipuleggjendur hvetja sveitarfélög til að taka daginn frá og senda fulltrúa sinna nefnda á fundinn. Fyrir þá sem ekki komast verður fundinum streymt.
Ákveðið er að fulltrúar nefndarinnar taki þátt í fundinum í gegnum streymi og eru nefndarmenn hvattir til að taka daginn frá.


7.Staðsetning á nýjum ærslabelg á Sauðárkróki

2206335

Málið var tekið fyrir á fundi byggðarráðs þann 6. júlí síðastliðinn. Byggðarráð vísaði erindinu um staðsetningu til umhverfis- og samgöngunefndar.
Hollvinasamtökin Leikum á Króknum hóf söfnun fyrir hoppubelg í september 2019 þegar byggðarráð Skagafjarðar samþykkti staðsetningu á hoppubelg hjá Sundlaug Sauðárkróks. Söfnunin tókst með eindæmum vel og á aðeins fjórum vikum var belgurinn kominn upp og í notkun öllum krökkum á Króknum til mikillar gleði. Samtökin fengu þá á sig áskorun um að halda áfram að safna fyrir nýju tæki og lét hópurinn ekki staðar numið heldur hélt söfnuninni áfram. Margar hugmyndir komu upp um ný tæki, m.a. að safna fyrir nýjum belg sem yrði þá staðsettur einhverstaðar í Túnahverfi eða Hlíðahverfi. Nú langar Leikum á Króknum hópnum að koma með tillögu að staðsetningu á nýjum belg sem verður fjárfest í um leið og byggðarráð samþykkir staðsetningu.
Umhverfis- og samgöngunefnd fagnar erindinu og bendir á að nauðsynlegt er að breið sátt náist um staðsetningu nýs ærslabelgs. Ekki liggur fyrir heildrænt deiliskipulag af Túnahverfi né Hlíðahverfi en í deiliskipulagi skal setja fram ákvæði um almannarými eins og götur, torg, leiksvæði og almenningsgarða. Í dag er útivistarsvæði milli Raftahlíðar og Birkihlíðar. Nefndin telur því að tillaga 3 af framkomnum tillögum Leikum á Króknum sé ákjósanlegur staður fyrir nýjan ærslabelg, nánar tiltekið við hlið Iðju. Sviðstjóra Veitu- og framkvæmdasviðs er falið að ræða við hópinn um áframhaldandi framgang málsins.

8.Ábending v lausagöngu búfjár

2208077

Lagt fram bréf sem barst 10. ágúst 2022 frá Kolbrúnu Grétarsdóttur varðandi ábendingu um lausagöngu búfjár í Blönduhlíð fremri. Búpeningur sé of mikið í lausagöngu og hafi verið valdur að bílslysum á Þjóðvegi 1 þar sem hann liggur um Blönduhlíð. Þetta sé verulegt vandamál og telur bréfritari að nú sé komið að því að banna lausagöngu búfjár á vegum í Skagafirði.
Landbúnaðarnefnd fjallaði um málið á fundi sínum 15. ágúst síðastliðinn. Í bókun sinni skorar Landbúnaðarnefnd á landeigendur að sinna viðhaldi girðinga meðfram þjóðvegum og minnir á að Vegagerðin endurgreiðir kostnað við viðhald veggirðinga sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 930/2012.
Umhverfis- og samgöngunefnd hvetur búfjáreigendur til þess að gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að halda búfé frá vegum og afsetja þann fénað sem sækir út á veg. Af gefnu tilefni er ástæða til það rifja upp að fyrir um þremur árum síðan viðruðu fulltrúar Sveitarfélagsins Skagafjarðar þá hugmynd við forsvarsmenn Vegagerðarinnar að hafnar yrðu viðræður um möguleika þess að koma á sambærilegu samkomulagi og gert var við Húnaþing vestra um friðun ákveðinna vegkafla í gegnum sveitarfélagið, gegn því að Vegagerðin girti nýjar girðingar þar sem þess væri þörf og yfirtæki þær girðingar sem fyrir væru fyrir tiltekinn tíma. Húnaþing vestra auglýsti í kjölfarið bann við lausagöngu búfjár á þessum vegum. Með samningnum voru allar girðingar meðfram áðurnefndum vegum komnar að fullu í umsjón Vegagerðarinnar. Vegagerðin hefur ekki brugðist við fyrrgreindu erindi Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
Umhverfis- og samgöngunefnd felur sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs að taka erindið upp að nýju við samgönguráðherra og forsvarsmenn Vegagerðarinnar.

9.Samstarfsnefnd fyrir friðland í Þjórsárverum

2208248

Í samræmi við 4. gr. auglýsingar um friðland í Þjórsárverum, óskar Umhverfisstofnun eftir því að Skagafjörður tilnefni einn aðila í samstarfsnefnd um friðlandið.
Í fjórðu grein auglýsingarinnar segir: "Umhverfisstofnun hefur umsjón með friðlandinu en stofnuninni til ráðgjafar er 10 manna nefnd og skipar hvert sveitarfélag einn fulltrúa og Umhverfisstofnun einn og er sá formaður nefndarinnar. Með nefndinni skulu starfa fulltrúar Háskóla Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Skipunartími nefndarinnar er sá sami og kjörtímabil sveitarstjórna. Skal ráðgjafanefndin funda minnst einu sinni á ári. Umhverfisstofnun er heimilt að höfðu samráði við ráðgjafanefnd að setja ítarlegri reglur um umgengni í friðlandinu, sbr. 81. gr. laga nr. 60/2013." Þess er óskað að tilnefningin berist eigi síður en 17. september ásamt heimilisfangi og netfangi viðkomandi. Umhverfisstofnun vekur athygli á 15. gr. laga nr 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, en þar er meðal annars kveðið á um að þegar tilnefnt er í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli tilnefna bæði karl og konu. Forstjóri Umhverfisstofnunar skipar í nefndina og velur úr tilnefningum svo kynjaskiptingin sé sem jöfnust.
Tilnefningaraðilar bera kostnað af setu fulltrúa sinna í nefndinni.
Byggðarráð tilefndi á 12. fundi sínum 7. september sl. þau Hrefnu Jóhannesdóttur og Svein F. Úlfarsson sem fulltrúa í samstarfsnefndinni.
Umhverfis- og samgöngunefnd samþykkir tillöguna.

Fundi slitið - kl. 17:00.