Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar

395. fundur 26. mars 2020 kl. 09:05 - 09:20 með fjarfundabúnaði
Nefndarmenn
  • Stefán Vagn Stefánsson aðalm.
  • Ingibjörg Huld Þórðardóttir aðalm.
  • Axel Kárason aðalm.
  • Gísli Sigurðsson aðalm.
  • Regína Valdimarsdóttir forseti
  • Álfhildur Leifsdóttir aðalm.
  • Sveinn Þ. Finster Úlfarsson 1. varam.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir aðalm.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
  • Helga Sigurrós Bergsdóttir ritari
Fundargerð ritaði: Helga Sigurrós Bergsdóttir stjórnsýsluritari
Dagskrá
Í upphafi fundar fór forseti þess á leit við fundarmenn að taka síðara málið á boðaðri dagskrá fundarins, "Heimild til fullnaðarafgreiðslu og breytinga á innheimtu gjalda" fyrir með afbrigðum, en það var afgreitt á fundi byggaðrráðs í gær, 25. mars 2020.
Fundurinn er haldinn í gegnum fjarfundabúnað Microsoft Teams og fundarmenn samþykkja fundargerðina með tölvupósti.

Bjarni Jónsson mætti ekki á fundinn.

1.Breytingar á sveitarstjórnarlögum v. fjarfundi vegna Covid 19

2003195

Í ljósi nýsamþykktra breytinga á sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 og auglýsingar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um beitingu VI. bráðabirgðaákvæðis laganna, hefur sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar ákveðið eftirfarandi:

1. Að nota fjarfundarbúnað á fundum sveitarstjórnar og nefnda sveitarfélagsins, án þess að fjarlægðir séu miklar, samgöngur innan sveitarfélags séu erfiðar eða mælt sé fyrir um notkun slíks búnaðar í samþykktum sveitarfélagsins.

2. Að engin takmörk verði á fjölda fundarmanna sem taka þátt í fundum sveitarstjórnar og nefnda sveitarfélagsins í fjarfundarbúnaði.

3. Að staðfesting fundargerða sveitarstjórnar verði með öðrum hætti en mælt er fyrir um í 10 og 11. gr. leiðbeininga innanríkisráðuneytisins, frá 15. janúar 2013, um ritun fundargerða, nr. 22/2013, m.ö.o. fundargerð er send á bæjarfulltrúa strax að loknum fjarfundi og skulu bæjarfulltrúar senda svar með tölvupósti á fundarritara þar sem fundargerð fundarins er staðfest. Þegar bæjarfulltrúar sitja næst fund sem ekki er fjarfundur skulu þeir undirrita fundargerðir eins og mælt er fyrir um í 10. og 11. gr. umræddra leiðbeininga innanríkisráðuneytisins um ritun fundargerða.

Ákvörðun þessi gildir til 18. júlí 2020 skv. auglýsingu ráðherra, nema sveitarstjórn ákveði að afnema ákvörðunina fyrr.
Engin kvaddi sér hljóðs.
Tillagan borin upp til afgreiðslu sveitarstjórnar og samþykkt með 8 atkvæðum.

2.Heimild til fullnaðarafgreiðslu og breytinga á innheimtu gjalda

2003217

Vísað frá 907. fundar byggðarráðs þann 25. mars 2020 til afgreiðslu sveitarstjórnar, þannig bókað:

“Lagður fram tölvupóstur dagsettur 23. mars 2020 frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga varðandi leiðbeiningar um aðgerðir fyrir heimilin vegna COVID-19 faraldursins og leiðbeiningar við ákvarðanir um afslátt af greiðsluhlutdeild notenda í velferðarþjónustu.
Útbreiðsla COVID-19 veirunnar veldur miklu raski á allri starfsemi í Sveitarfélaginu Skagafirði. Hefur þetta ástand einnig áhrif á bæði fyrirtæki og heimili með fyrirsjáanlegu tekjutapi á næstu mánuðum.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkir að beina því til sveitarstjórnar að eftirfarandi verði samþykkt sem fyrstu aðgerðir af hálfu sveitarfélagsins:

a) Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkir eftirfarandi breytingu á eindögum í samþykktri gjaldskrá fasteignagjalda árið 2020. Eindögum gjalddaga frá 1. apríl til 1. október 2020 verður seinkað um tvo mánuði, þ.e. eindagi gjaldaga 1. apríl verður 30. júní 2020 o.s.frv.

b) Vegna þeirra raskana sem orðið hafa á þjónustu stofnana sveitarfélagsins vegna COVID-19 veirunnar mun greiðsluhlutdeild einungis ná til þeirrar þjónustu sem raunverulega er nýtt í þjónustu stofnana sveitarfélagsins, þ.e. leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla, frístund og dagdvöl aldraðra, og verður innheimta þjónustunnar endurskoðuð í því ljósi. Skal sú tilhögun hefjast frá og með þeim tíma sem þjónusta var skert vegna COVID-19 veirunnar en um er að ræða tímabundna ákvörðun sem gildir til loka maí nk. Endurskoðun fer fram að teknu tilliti til aðstæðna og verður fyrirkomulagið auglýst að nýju eigi síðar en 15. maí nk.

c) Sveitarstjórn felur sveitarstjóra og sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs heimild til fullnaðarafgreiðslu skv. ofangreindu.
Sveitarstjórn mun í framhaldinu skoða fleiri leiðir til að bregðast við ástandinu, fylgjast með aðgerðum ríkisstjórnar og því hvernig önnur sveitarfélög bregðast við og vera í sambandi við Samband íslenskra sveitarfélaga um nánari útfærslur. “

Enginn kvaddi sér hljóðs.
Borið upp til afgreiðslu sveitarstjórnar og samþykkt með 8 atkvæðum.

Fundi slitið - kl. 09:20.