Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar

207. fundur 07. júní 2007
Sveitarstjórn Skagafjarðar
Fundur  207 - 7. júní 2007
 
Ár 2007, fimmtudaginn 7. júní kl. 16:00, kom Sveitarstjórn Skagafjarðar saman til fundar í Vesturfarasetrinu á Hofsósi.
           
Mætt voru:      
Gunnar Bragi Sveinsson, Þórdís Friðbjörnsdóttir, Einar E. Einarsson, Íris Baldvinsdóttir, Bjarni Egilsson, Páll Dagbjartsson, Sigríður Björnsdóttir, Gréta Sjöfn Guðmundsd. og Bjarni Jónsson.
Auk þess sat fundinn Guðmundur Guðlaugsson, sveitarstjóri.
 
Fundarritari var Engilráð Margrét Sigurðardóttir.
 
Erindi til afgreiðslu
 
1.
391. fundur byggðaráðs, 30. maí 2007.
 
 
Mál nr. SV070303
 
Fundargerðin er í 15 liðum. Gunnar Bragi Sveinsson kynnti fundargerðina.
Til máls tók Bjarni Egilsson og óskaði eftir að tillaga fulltrúa Sjálfstæðismanna og VG í 1. lið fundargerðar yrði borin sérstaklega undir atkvæði.
 
Þá kvöddu sér hljóðs Guðmundur Guðlaugsson, Bjarni Jónsson, fleiri ekki.
 
Svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðismanna og VG frá byggðarráðsfundinum borin undir atkvæði:
 
“Byggðaráð samþykkir að kanna eftirfarandi kosti til að fjármagna og framkvæma byggingu fyrirhugaðra skólamannvirkja í Sveitarfélaginu Skagafirði.
Könnuð verði lánakjör og neðangreindir kostir reiknaðir út og bornir saman.
 
Fjármögnun - lánakjör.
 
1.   Lánasjóður sveitarfélaga.
2.   Bankalán
3.   Einkaaðilar
Könnuð verði lánakjör og kostir beinnar lántöku eða útboðs á fjármögnun.
 
Framkvæmd verks.
 
1.   Sveitarfélagið sjálft. Hönnun. Útboð. Hefðbundinn verksamningur. – Hefðbundinn rekstur sveitarfélagsins á byggingunni.
2.   Útboð. Alverksamningur um hönnun og byggingu hússins. Hefðbundinn rekstur sveitarfélagsins á byggingunni.
3.   Einkaframkvæmd. Fjármögnun, hönnun, bygging og rekstur hússins. – Leigusamningur til x ára.
4.   Einkaframkvæmd. Fjármögnun, bygging og rekstur hússins. Sveitarfélagið með hönnun. – Leigusamningur til x ára.
5.   Einkaframkvæmd. Fjármögnun og bygging hússins. Sveitarfélagið með rekstur hússins. - Leigusamningur til x ára.  
6.   Fasteignafélag. Sveitarfélagið og einkaaðilar. Bygging og rekstur hússins. – Leigusamningur til x ára.
 
Við ákvörðun verði valin sú leið sem hagstæðust er fyrir sveitarfélagið.
Gengið verði út frá því í öllum tilfellum að framkvæmdirnar verði boðnar út.
 
 
Greinargerð.
 
20. júní s.l. samþykkti sveitarstjórn eftirfarandi tillögu um fjármögnun framkvæmda.  “Sveitarstjórn samþykkir að fela byggðaráði að koma með tillögur um hvernig megi fjármagna framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins á sem hagkvæmastan hátt, s.s. skólabyggingar. Nefndin skili tillögum sínum fyrir gerð næstu fjárhagsáætlunar”.
 
15. nóv. s.l. var eftirfarandi afgreitt í byggðaráði.
“Í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs og þriggja ára áætlunar þarf að skoða sérstaklega tillögur að nýframkvæmdum sem rætt hefur verið að ráðast þurfi í á næstu árum og mögulegar leiðir til fjármögnunar þeirra.
Formanni byggðaráðs og sveitarstjóra falið að skoða mögulegar leiðir til fjármögnunar nýframkvæmda og leggja tillögur fyrir byggðaráð”.
 
8. maí s.l. kynnti sveitarstjóri fyrir byggðaráði hugmynd að einum möguleika til að fjármagna og framkvæma byggingu leikskóla á Sauðárkróki.
Þessi möguleiki hefur nú verið lagður fyrir byggðaráð í formi samnings, án þess að fram komi áætlaður heildarkostnaður sveitarfélagsins, án tölulegra upplýsinga um samanburð við aðra kosti og án rökstuðnings um, hvort þetta sé hagkvæmasta leiðin. 
Við athugun á hvernig að svona framkvæmdum er staðið í öðrum sveitarfélögum er augljóst að fleiri kostir koma til greina.
Það eru eðlileg vinnubrögð að byggðaráð láti gera tölulegan samanburð á þeim kostum sem til greina koma og skapa þannig forsendur til að velja þá leið sem hagkvæmust er fyrir sveitarfélagið og íbúa þess.
Bjarni Egilsson.
Gísli Árnason.”
           
Tillagan felld með fimm atkv. gegn fjórum.
 
Gunnar Bragi Sveinsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram bókun fyrir hönd meirihlutans:
 
“Á síðasta kjörtímabili skipaði meirihluti Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna nefnd til að skoða fjármögnun framkvæmda. Sú nefnd skilaði ekki af sér þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um. Málatilbúnaður Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna er fullur rangfærslu og er eingöngu til þess fallinn að tefja málið. Í fjögur ár töfðu þessir flokkar framþróun samfélagsins í Skagafirði. Nú er nóg komið.”
 
Bjarni Egilsson tók til máls og lagði fram bókun fyrir hönd minnihlutans:
 
 “Það er með öllu óverjandi fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð að semja við einn aðila, í þessu tilfelli Kaupfélag Skagfirðinga eða dótturfélag þess, um framkvæmd af þessari stærðargráðu án þess að aðrir valkostir séu skoðaðir og án útboða.
Bráðabirgðaútreikningar benda til þess að þessi útfærsla sé að lágmarki 55 milljón krónum dýrari en aðrir kostir á samningstímanum.
Hagsmunir sveitarfélagsins eru með öllu fyrir borð bornir ef skrifað er upp á óútfylltan víxil með þessum hætti.”
 
Guðmundur Guðlaugsson kvaddi sér hljóðs. Því næst Páll Dagbjartsson, Guðmundur Guðlaugsson, Bjarni Egilsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Einar E. Einarsson, Bjarni Jónsson. Þá Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir með leyfi 1. varaforseta, síðan Bjarni Egilsson, Páll Dagbjartsson, fleiri ekki.
 
Samkomulag um byggingu og leigu leikskólamannvirkis á Sauðárkróki, borið undir atkvæði og samþykkt með fimm atkv. gegn fjórum.
Bjarni Egilsson óskar að gera grein fyrir atkvæði sínu og leggur fram bókun fyrir hönd minnihlutans:
 
“Samstaða er í sveitarstjórn um nauðsyn þess að  byggja nýjan leikskóla á Sauðárkróki, en deilt er um hvernig standa skuli að fjármögnun og framkvæmd byggingarinnar.
 
Það er grundvallaratriði og skylda kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn að velja hagkvæmustu leiðina fyrir sveitarfélagið og beita til þess löglegum og viðurkendum leikreglum um opinberar framkvæmdir.  Það  er fullkomlega ábyrgðarlaust að ekki skuli búið að hanna mannvirkið í samráði við fagfólk og gera ítarlega kostnaðaráætlun, áður en sveitarstjórn staðfestir samkomulag um fjármögnun, framkvæmd og leigu á því.
 
Þar kemur að sjálfsögðu til greina að fela einkaaðilum verkefni eins og þetta, ef  það reynist hagkvæmara. Það er hins vegar afar hæpin stjórnsýsla að ganga til samninga við einn aðila, í þessu tilfelli Samfélagið ehf, um fjármögnun og framkvæmd á svo stóru verki sem hér um ræðir, án þess að búið sé að hanna mannvirkið, áætla heildarkostnað sveitarfélagsins og bera saman við aðra kosti til fjármögnunar og framkvæmda. 
 
Sú stjórnsýsla sem meirihluti Framsóknarflokks og Samfylkingar viðhefur í þessu máli vekur upp margar spurningar um hvort hér sé fylgt lögum og reglum sem gilda þegar sveitarfélag ræðst í framkvæmdir af þessari stærðargráðu, og hvort þetta sérkennilega og opna samkomulag rúmist innan gildandi lagaramma.  
Við sveitarstjórnarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna sjáum okkur knúin til að láta skera úr um lögmæti þessa gjörnings.”
 
Gunnar Bragi Sveinsson tók til máls og lagði fram bókun meirihlutans:
 
“Allt síðasta kjörtímabil lá fyrir að leysa þyrfti vanda varðandi leikskólarými á Sauðárkóki, en við því var ekki brugðist.  Núverandi meirihluti setti í forgang að standa að byggingu á nýjum Leikskóla í stað Furukots sem rekinn er í dag á þrem stöðum.  Sveitarfélagið Skagafjörður hefur ekki óheftan aðgang að lánsfé eða getu til lántöku ef horft er til fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og því var leitað nýrra leiða. Eftir viðræður við Kaupfélag Skagfirðinga bauðst sveitarfélaginu einstakt tilboð um fjármögnun og byggingu leikskóla.  Fyrirtækið tekur að sér að útvega lánsfé á sambærilegum kjörum og sveitarfélögum stendur best til boða í dag á almennum markaði án þess að fyrirtækið taki þóknun fyrir. Með því að fara í samstarf við Kaupfélagið á þessum forsendum er sveitarfélagið að fara í samstarf um uppbyggingu sem á sér ekki hliðstæðu ef horft er til annarra sveitarfélaga, leið sem gerir sveitarfélaginu keyft að ráðast í byggingu leikskóla án þess að komi niður á annarri fjármögnun sveitarfélagsins.  Slíku samstarfi er því ekki hægt að hafna og er Kaupfélagi Skagfirðinga þakkað fyrir velvilja í garð sveitarfélagsins
 
Helstu rökin fyrir því að þessi leið er farin eru eftirfarandi:
 
1.       Leið þessi takmarkar ekki möguleika á hagstæðum lántökum hjá Lánasjóði sveitarfélaga til endurfjármögnunar óhagstæðra eldri lána en meirihluti sveitarstjórnar vinnur að og hyggst ná verulega niður fjármagnskostnaði með endurfjármögnun slíkra lána.
 
2.       Leið þessi takmarkar að sama skapi ekki möguleika á hagstæðum lánum frá sjóðnum til að mæta öðrum nauðsynlegum framkvæmdum á sama tíma.
 
3.       Leið þessi tryggir að vinna við framkvæmdina og efnisöflun til verksins verður sinnt af heimaaðilum.  Það að verkið er unnið af heimaaðilum tryggir um leið, í ljósi mikilla framkvæmda í Skagafirði, að næg viðfangsefni verða til staðar fyrir iðnaðarmenn og verktaka í sveitarfélaginu á meðan framkvæmdir við leikskólabyggingu standa yfir.
 
4.       Samkomulagið tryggir sveitarfélaginu, í gegn um samningsaðila okkar, hagkvæmustu kjör á lánsfjármarkaði sem einkaaðilar eiga kost á. Samningsaðili mun ekki hagnast af fjármögnunarþætti framkvæmdar.
5.       Sameiginlegt markmið samningsaðila er að verkefnið sé unnið á sem hagkvæmastan hátt með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi.
 
6.       Samið verður um fast verð fyrir framkvæmd á grundvelli vandaðs kostnaðarmats óháðrar verkfræðistofu.  Afar ólíklegt er að útboð leiddi til lægra verðs í ljósi þenslu á verktakamarkaði sbr. nýlega reynslu okkar af útboðsframkvæmd.
 
7.       Samið verður um hagkvæmnimarkmið með hvatningarákvæði þar sem framkvæmdaðili hagnast beint af því að ná sem bestum árangri í lækkun á framkvæmdakostnaði niður fyrir umsamið verð.  Gert er ráð fyrir að aðilar skipti með sér slíkum ávinningi þannig að það hefði einnig áhrif til lækkunar leigu.
 
8.       Samkomulag er um að verkefnið verði “endastöð” hvað virðisaukaskatt áhrærir þannig að ekki verður af hálfu framkvæmdaaðila sótt um endurgreiðslu skatts vegna hennar. Virðisaukaskattur leggst því ekki á leigugreiðslur þegar leigutími hefst sem hefur tugmilljóna króna lækkun heildarkostnaðar í för með sér. 
 
9.       Í hefðbundinni einkaframkvæmd leggur framkvæmda- og rekstraraðili eigið aukaálag á fjármögnun og aðra kostnaðarþætti auk þess sem virðisaukaskattur bætist þar ofan á. Svo er ekki í þessari framkvæmd og er hún því mun hagstæðari en hefðbundin einkaframkvæmd.
 
Meirihluti sveitarstjórnar undrast viðbrögð minnihlutans varðandi samkomulagið, ekki síst í ljósi þess hve hagur íbúa sveitarfélagsins er mikill. Um árabil hafði meirihluti Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna tækifæri til að bæta úr í málefnum leikskólanna en gerðu það ekki. Afstaða þeirra hlýtur því m.a. að ráðast af gremju yfir árangri núverandi meirihluta. Hvetjum við minnihlutann til að horfa framávið líkt og meirihlutinn gerir.”
 
Bjarni Jónsson lagði fram bókun:
 
“Hvers vegna þolir þetta samkomulag ekki óyggjandi samanburð við aðra kosti?”
Bjarni Jónsson
Páll Dagbjartsson
Bjarni Egilsson
Sigríður Björnsdóttir
 
Þar eð 1. liður hefur þegar verið afgreiddur er fundargerðin nú að öðru leyti borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
 
 
2.
392. fundur byggðaráðs, 5. júní 2007.
 
 
Mál nr. SV070317
 
Fundargerðin er í 5 liðum. Gunnar Bragi Sveinsson kynnti fundargerðina.
 
Til máls tóku Þórdís Friðbjörnsdóttir, Páll Dagbjartsson, Guðmundur Guðlaugsson, Bjarni Egilsson.
 
Þá Bjarni Jónsson og leggur fram bókun:
“Það er fagnaðarefni að breið samstaða sé í sveitarstjórn um að leysa úr aðstöðuskorti eldri borgara og ungmenna í sveitarfélaginu og að þrýstingur fulltrúa minnihlutans hafi nú skilað þessum árangri. Skrifleg fyrirspurn og áminning fulltrúa VG varðandi aðgerðaleysi í húsnæðismálum eldri borgara og ungmenna sem tekin var fyrir í sveitarstjórn fyrir skemmstu hefur loks kallað fram viðbrögð hjá fulltrúum meirihlutans og vakið þá af svefni. Á síðasta sveitarstjórnarfundi voru þessi húsnæðismál ekki betur stödd en svo að fulltrúar meirihlutans gátu ekki einu sinni gefið efnislegt svar við fyrirspurninni sem hægt væri að færa í fundargerð en slíkum fyrirspurnum ber að svara skriflega.”
 
Síðan Gunnar Bragi Sveinsson og leggur fram bókun:
“Meirihluti VG og Sjálfstæðisflokks hafnaði því að kaupa umrætt hús þegar það bauðst á um 10 milljónir króna. Málflutningur fulltrúa Vinstri grænna er því með ólíkindum.”
 
Páll Dagbjartsson kvaddi sér hljóðs, þá Þórdís Friðbjörnsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Bjarni Jónsson, Bjarni Egilsson, fleiri ekki.
 
Liður 1 borinn undir atkvæði í tvennu lagi:
Kaupsamningur um húsnæði fyrir Hús frítímans samþykktur samhljóða.
Ákvörðun byggðarráðs um mötuneytisaðstöðu Árskóla samþykkt samhljóða.
 
Fundargerðin að öðru leyti borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
 
 
3.
070531 Atvinnu- og ferðamálanefnd
 
 
Mál nr. SV070305
 
Fundargerðin er í 5 liðum. Gunnar Bragi Sveinsson kynnti fundargerð.
Enginn kvaddi sér hljóðs.
Fundargerðin borin undir atkv. og samþykkt samhljóða.
 
 
4.
070604 Atvinnu- og ferðamálanefnd
 
 
Mál nr. SV070306
 
Fundargerðin er í 2 liðum. Gunnar Bragi Sveinsson kynnti fundargerð.
Til máls tók Bjarni Jónsson, fleiri ekki.
Fundargerðin borin undir atkv. og samþykkt samhljóða.
 
 
5.
070529 Félags- og tómstundanefnd
 
 
Mál nr. SV070307
 
Fundargerðin er í 7 liðum. Þórdís Friðbjörnsdóttir kynnti fundargerðina.
Til máls tók Bjarni Jónsson og lagði fram bókun:
“Ritun fundargerðar nefndarinnar er ófullnægjandi. Upplýsingar um erindi sem til umfjöllunar voru og afgreiðslu þeirra er óbótavant. Farið er fram á að sveitarstjóri sjái til þess að úr þessu verði bætt hjá nefndinni sem og öðrum nefndum þar sem það á við.”
 
Þá Páll Dagbjartsson, Guðmundur Guðlaugsson, Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir með leyfi 1. varaforseta, Þórdís Friðbjörnsdóttir, Bjarni Jónsson, fleiri ekki.
Fundargerðin borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
 
 
6.
070530 Fræðslunefnd 23
 
 
Mál nr. SV070308
 
Fundargerðin er 1 dagskrárliður. Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir kynnti fundargerð.
Enginn kvaddi sér hljóðs.
Fundargerðin borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
 
 
7.
070604 Fræðslunefnd 24
 
 
Mál nr. SV070309
 
Fundargerðin er í 9 liðum. Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir kynnti fundargerð.
Til máls tóku Páll Dagbjartsson og Guðmundur Guðlaugsson, fleiri ekki.
Fundargerðin borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
Páll Dagbjartsson óskar bókað að hann taki ekki þátt í afgreiðslu 7. liðar.
 
 
8.
070529 Landbúnaðarnefnd
 
 
Mál nr. SV070310
 
Fundargerðin er 1 dagskrárliður. Einar E. Einarsson kynnti fundargerð.
Til máls tók Bjarni Jónsson og lagði fram bókun:
“Vert er að vekja athygli á því hve vel ritaðar og vandaðar fundargerðir landbúnaðarnefndar jafnan eru. Umfjöllun um afgreiðslu mála er skýr og greinargóð.”
 
Fundargerðin borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
 
 
9.
070531 Landbúnaðarnefnd
 
 
Mál nr. SV070311
 
Fundargerðin er 1 dagskrárliður. Einar E. Einarsson kynnti fundargerð.
Enginn kvaddi sér hljóðs.
Fundargerðin borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.