Stjórn Menningarseturs Skagfirðinga

4. fundur 14. nóvember 2006
Stjórn  Menningarseturs  Skagfirðinga í Varmahlíð
Fundur 4 – 14.11.2006
 
 
Þriðjudaginn 14. nóvember 2006 kl. 20:00 kom stjórn Menningarseturs Skagfirðinga í Varmahlíð saman til fundar í Garðhúsum, á heimili formanns.
Mættir voru: Þóra Björk Jónsdóttir, Ásdís Sigurjónsdóttir, Arnór Gunnarsson, Guðmann Tobíasson og Gunnar Rögnvaldsson, sem einnig ritaði fundargerð.
 
Dagskrá:
1.      Ákvörðun um leigugjöld vegna sumarhúsa í Reykjarhólslandi.
2.      Gerð lóðarleigusamnings við ISSS-hús vegna sumarhúsa, sem verið er að reisa í landi Reykjarhóls.
3.      Útboð reikningshalds Menningarsetursins.
4.      Önnur mál
 
Þóra Björk setti fund og bauð fundarmenn velkomna.
 
Afgreiðslur:
 
1.      Þóra Björk lagði fram yfirlit yfir sumarhúsalóðir í Reykjarhólslandi, stærðir þeirra og uppreiknað verð skv. tveimur verðhugmyndum: 6 kr./m2 og 3,74 kr./m2. Stjórnin samþykkir að lóðaleigugjald sumarhúsa í Reykjarhólslandi verði 6 krónur á fermetra lóðar: 6 kr./m2. Mismunur á leigugjaldi íbúðalóða og frístundalóða í Reykjarhólslandi verður lagður í sérstakan sjóð og notaður til uppbyggingar á afþreyingaraðstöðu á sumarhúsasvæðinu.
 
2.      Formaður kynnti lóðaleigusamning við ISSS-hús, sem búið er að útbúa og er tilbúinn til undirritunar. Fyrsti gjalddagi er 1.1.2007 og greiðist leigan eftirá. – Sjá frekari skilmála í samningi.
 
3.      Formaður kynnti bréf til Leiðbeiningarmiðstöðvarinnar, KOM-bókhaldsþjónustu og KPMG-endurskoðunar, þar sem leitað er eftir tilboðum í reikningshald Menningarsetursins. Óskað er svars fyrir 1. desember 2006.
 
4.      Önnur mál:
a)      Niðurrif í Reykjarhólslandi á geymslu og hesthúsi: Skipulags- og byggingarnefnd hefur samþykkt beiðni stjórnar Menningarsetursins um niðurrif á geymslu og hesthúsi með fyrirvara um samþykki minjavarðar. Honum hefur verið kynnt málið og beðið er svars.
b)      Lóðamál Varmahlíðarskóla:  Á síðasta fundi komu lóðamál Varmahlíðarskóla til umræðu og var Ásdísi falið að kanna þau. Ásdís lagði fram gögn frá Páli Dagbjartssyni, skólastjóra þar sem lóð skólans er tilgreind. Páll aflaði þessara upplýsinga úr fundargerðabók Varmahlíðarstjórnar frá 21. júní 1973, en hvergi kemur þar fram að lóðinni hafi verið þinglýst.
c)      Gagnagrunnur:  Formaður kynnti hugmyndir sínar um að safna í gagnagrunn upplýsingum um þær lóðir, sem eru í landi Reykjarhóls, til að einfalda utanumhald um lóðamörk o.fl.
 
Fleira ekki gert og fundi slitið.