Samgöngunefnd

25. fundur 02. nóvember 2005 kl. 10:00 Ráðhúsið á Sauðárkróki

Miðvikudaginn 02. nóvember 2005 var samgöngunefnd saman komin til fundar í Ráðhúsinu á Sauðárkróki kl. 10:00.

Mætt voru: Brynjar Pálsson, Örn Þórarinsson, Valgerður Kjartansdóttir, Gunnar Steingrímsson hafnarvörður og Hallgrímur Ingólfsson, sviðsstjóri.

Dagskrá

  1. Skagafjarðarhafnir - Nýframkvæmdir
  2. Snjómokstur
  3. Gatnagerð - framkvæmdir
  4. Sjóvarnir
  5. Lóðarumsóknir – Sauðárkrókshöfn
  6. “Fær í flestan sjó” – erindi frá Frúnni ehf
  7. Lokauppgjör verka sem lokið var 2004 eða fyrr
  8. Önnur mál

Afgreiðslur:

1. Hallgrímur fór yfir þær framkvæmdir sem verið hafa í sumar. Lengingu Sandfangara v.Sauðárkrókshöfn og upptökubrautir fyrir smábáta á Sauðárkróki og Hofsósi, verk unnin í samráði við Siglingastofnun. Flotbryggja sem setja átti í Hofsóshöfn frestaðist en verður sett niður með vorinu.

Gerður var vegur utan verndarsvæðis hafnarinnar að tjörutankinum þannig að þeir sem nota tankinn þurfa ekki lengur inn á verndarsvæðið.

2. Hallgrímur kynnti tilhögun á snjómokstri í sveitarfélaginu og hverjir verða fulltrúar sveitarfélagsins á hverju svæði. Nánari upplýsingar verða á heimasíðu sveitarfélagsins og einnig verður þetta auglýst síðar í Sjónhorninu.

Ennfremur kynnti Hallgrímur snjómokstursreglur á Sauðárkróki, sem eru nánast óbreyttar frá fyrra ári. Nánari upplýsingar verða á heimasíðu sveitarfélagsins.

3. Hallgrímur greindi frá framkvæmdum í gatnagerð. Syðri hluti Iðutúns, norðurhluti Laugatúns og breikkun Sæmundarhlíðar austan Hlíðarkaups. Einnig var unnið að mörgum viðhaldsverkum á götum í bænum og endurnýjað malbik á nokkrum stöðum.

4. Hallgrímur greindi frá sjóvörnum á Hraunum í Fljótum og Haganesvík. Verkið var boðið út í sumar og átti Fjörður ehf eina tilboðið. Þessu verki á að vera lokið fyrir næsta vor, en það hefur ekki hafist enn vegna ótíðar.

Þessi verk eru unnin á vegum Siglingastofnunar, sem greiðir þau að fullu.

5. Umsókn um lóð á hafnarsvæði á Sauðárkróki.

a) Kaupfélag Skagfirðinga sækir um stækkun lóðar vélaverkstæðis KS að Hesteyri 2. Óskað er eftir því að fá úthlutað öllu svæðinu sunnan við vélaverkstæðið að frárennsli frá Gönguskarðsárvirkjun (Vatneyri 3).

b) Formaður nefndarinnar lagði eftirfarandi erindi fram til kynningar: Hreinn Sigurðsson, f.h. Íslensks lindarvatns ehf endurnýjar hér með umsókn um byggingaleyfi á lóðinni Vatneyri 1 á Sauðárkróki. Með umsókninni fylgja endurunnar og breyttar teikningar af væntanlegum byggingum, gerðar af Sigríði Ólafsdóttur.

Eftirfarandi samþykkt vegna umsóknar KS:

Í febrúar voru samþykktar breytingar á deiliskipulagi hafnarsvæðis á lóð Hesteyri 2 til að verða við óskum Kaupf. Skagfirðinga um væntanleg byggingaráform á lóðinni. Nú kemur ný umsókn þar sem óskað er eftir verulegri stækkun á lóðinni. Því óskar nefndin eftir að Kaupfélagið leggi fram ítarlegri hugmyndir um nýtingu lóðarinnar. Jafnframt bendir nefndin á að nú er í gangi vinna við deiliskipulag á hafnarsvæðinu.

- Örn Þórarinsson vék af fundi við afgreiðslu málsins.

6. Hallgrímur kynnti erindi frá Frúnni ehf, þar sem kynnt er ritverkið “Fær í flestan sjó”. Í ritverkinu verður kynnt útgerðarsaga flestra bæjarfélaga á landinu. Óskað er eftir fjárstuðningi frá hafnarsjóði sem nemur 29 þús. kr. á blaðsíðu. Áætlað er að umfjöllum um Skagafjörð verði á 2-4 blaðsíðum. Erindi samþykkt.

7. Hallgrímur kynnti lokauppgjör verka frá fyrri árum. Erindi frá Siglingastofnun. Verkin voru eftirfarandi:

Haganesvík, Viðhaldsdýpkun.

Sauðárkrókur, stálþil Norðurgarði, þekja.

Hofsós, Norðurgarður, styrking.

Nefndin fór yfir erindið og samþykkti það.

8. Önnur mál.

a) Brynjar ræddi málefni Haganesvíkurhafnar og greindi frá því að komnar væru hugmyndir að hafnarmannvirkjum þar ásamt kostnaðaráætlun. Gert af Siglingastofnun. Í hugmyndunum eru grjótgarður, dýpkun og flotbryggja. Gróf kostnaðaráætlun er 40-50 millj. króna með því að grjótnáma finnist í minna en 15 km fjarlægð. Á undanförnum árum hefur verið sótt um fjármagn til Fjárveitinganefndar Alþingis til að ráðast í uppbyggingu á Haganesvíkurhöfn. Þetta erindi var ítrekað af hálfu Sveitarstjórnar Skagafjarðar í september 2005 og að þetta verði skilgreint sem sérstakt “byggðaátaksverkefni”.

b) Erindi frá Skeljungi hf, Pétri Sigurðssyni, þar sem þeir lýsa áhuga á að koma upp olíuafgreiðslubúnaði fyrir báta á höfninni á Hofsósi. Hallgrími falið að ræða málið við fulltrúa Skeljungs hef.

c) Gunnar ræddi um vigtarhús á Hofsósi og greindi frá því að þar væri þörf verulegra umbóta.

 

Fleira ekki fyrir tekið.

Örn Þórarinsson, ritari

Valgerður Inga Kjartansdóttir                                  

Gunnar S. Steingrímsson

Brynjar Pálsson                                             

Hallgrímur Ingólfsson