Menningar-, íþrótta- og æskulýðsnefnd

16. fundur 08. febrúar 1999 Í Stjórnsýsluhúsi Sauðárkróks

Menningar- íþrótta- og æskulýðsnefnd Skagafjarðar kom saman mánudaginn 8. febrúar 1999, kl. 16.00 í Stjórnsýsluhúsinu Sauðárkróki.
Mætt voru Ásdís Guðmundsdóttir, Sigurbjörg Guðjónsdóttir, Jón Garðarsson, Gísli Eymarsson og Helgi Thorarensen auk Páls Kolbeinssonar, ritara.

Dagskrá:

            1. Fjárhagsáætlun 1999.

            2. Bréf frá sunddeild U.M.F.T.

            3. Ráðning forstöðumanns félagsmiðstöðvar.

            4. Önnur mál.

Afgreiðslur:

1. Drög að fjárhagsáætlun kynnt.

2. Borist hefur bréf frá formanni sunddeildar U.M.F.T. varðandi ástand sundlaugar Sauðárkróks.
Bókun Sigurbjargar Guðjónsdóttur er svohljóðandi:
“ Undirrituð leggur til að hafist verði handa að meta ástand Sundlaugar Sauðárkróks og móta henni framtíðarstefnu. Til þessa verks verði ætlaðir fjármunir í fjárhagsáætlun”

3. Ein umsókn barst og mælir nefndin með Sigríði A. Jóhannsdóttur Karfavogi 27, Reykjavík í starf forstöðumanns félagsmiðstöðvar Sauðárkróks.

4. Önnur mál.
Gísli Eymarsson lagði fram eftirfarandi bókun.
“Vegna greinar fulltrúa S-listans í Menningar-,íþrótta og æskulýðsnefnd Sveitarstjórnar Skagafjarðar í Feyki þann 6. janúar síðastliðinn sem birtist í framhaldi af bókun hans á fundi nefndarinnar þann 7. desember 1998 svo og málflutnings fulltrúa S-listans á sveitarstjórnarfundi nýverið óskað bókað.
Undanfarnar vikur hafa fulltrúar S-listans bæði í sveitarstjórn og í Menningar-, íþrótta- og æskulýðsnefnd verið afar ötulir að tjá sig um afgreiðslur og verklag Byggðaráðs Skagafjarðar varðandi tiltekin mál er ráðinu hafa borist. Má þar nefna staðfestingu á hvar framtíðarskíðasvæði Skagafjarðar er fyrirhugað og afgreiðslur á erindum er varða ritun Byggðasögu Skagfirðinga. Að ætla hér að reyna að rökstyðja og útskýra afgreiðslur Byggðaráðs er ekki í mínum verkahring enda ekki í þessu annars ágæta ráði. Enda held ég að það væri eins og að bera í bakkafullan lækinn að reyna það einu sinni enn svo oft og skilmerkilega sem það hefur verið gert.
Hitt er svo annað mál og fremur einkennilegt hvernig fyrrnefndir fulltrúar hafa hagað málflutningi sínum varðandi þetta fyrirhugaða skíðasvæði. Æ ofan í æ hafa þeir á sveitastjórnafundum, á fundum M - Í og Æ nefndar og í fjölmiðlum beint umræðunni á þann veg að annaðhvort  sé um að ræða að Skagfirðingar fái skíðasvæði eða og ég vil leggja áherslu á eða að Skagfirðingar haldi Landsmót UMFÍ einhvern tíma í nánustu framtíð að ég tali nú ekki um að halda Landsmót hestamanna. Mér þykir þessi málatilbúnaður alveg með eindæmum og tilgangurinn eingöngu að fela gífurlega málefnafátækt í þessum málum sem öðrum er virðist hrjá fulltrúa Skagafjarðarlistans.
Mér vitanlega hefur aldrei borist formlegt erindi hlutaðeigandi aðilum til M.-í og æ-nefndar varðandi hugmyndir og óskir um að halda Landsmót UMFÍ hér í Skagafirði né hafa farið fram umræður í nefndinni þar að lútandi og er það útgangspunkturinn í þessari bókun.
Ef þetta er það verklag sem fulltrúi S-listans ætlar að viðhafa í nefndinni, þ.e. að kynna og hefja umræðu í veigamiklum málum sem þessum í gegnum fjölmiðla, þá hann um það. Ég vona hins vegar að hann sjái að sér í framtíðinni varðandi þessi mál og beri ásamt flokkssystkynum sínum gæfu til að sýna ábyrgari stjórnarandstöðu heldur en gert hefur verið til þessa.

Fleira ekki gert og fundi slitið