Landbúnaðarnefnd

40. fundur 25. júní 1999 kl. 21:00 Grunnskólinn á Hólum

Landbúnaðarnefnd Skagafjarðar

Fundur 40 – 25.06.1999

 

            Ár 1999, föstudaginn 25. júní, kl. 2100 boðaði landbúnaðarnefnd til fundar í Grunnskólanum á Hólum.

            Boðaðir voru til fundar þeir aðilar sem upprekstrarrétt eiga á Kolbeinsdalsafrétt.  Landbúnaðarnefndarmenn voru mættir að undanskildum Skapta Steinbjörnssyni sem hafði boðað forföll.  Þá var mættur að boði landbúnaðarnefndar Stefán Ólafsson hdl. á Blönduósi.

 

DAGSKRÁ:

  1. Fundarsetning, tilnefning starfsmanna fundarins.
  2. Leitað eftir umboðum.
  3. Hrossaupprekstur á Kolbeinsdalsafrétt og skipting upprekstrarréttar.
  4. Kynnt fyrirkomulag um nýtingu Ásgarðs og Kolkuóslands til hrossabeitar.

 

AFGREIÐSLUR:

1. Bjarni Egilsson setti fund og bauð fundarfólk velkomið.  Gerði síðan tillögu um að Símon Traustason tæki að sér fundarstjórn og Sigurður Haraldsson ritaði fundargjörð.

 

2. Símon tók nú við fundarstjórn og kynnti dagskrá. Kallaði síðan eftir umboðum og fór yfir lista þeirra bæja sem upprekstur eiga og kannaði hverjir væru mættir til fundar.  Mættir voru til fundar 23.  Lögð voru fram 3 umboð sem voru:

     1)  Fyrir Svaðastaði – umboð frá Svölu Jónsdóttur til handa Atla Traustasyni, Syðri-Hofdölum.

     2)  Fyrir Hóla – umboð frá Jóni Bjarnasyni til handa Valdimar Sigmarssyni, bústjóra Hólum.

     3)  Fyrir Hofsstaði – umboð frá Birni Runólfssyni til handa Bessa F. Vésteinssyni.

Atkvæðisrétt hafa 39 samkvæmt skrá.


3-4. Hrossaupprekstur á Kolbeinsdalsafrétt og skipting upprekstrarréttar.  Bjarni Egilsson tók til máls.  Hann gerði grein fyrir tilefni fundarins sem var erindi sem borist hafði til landbúnaðarnefndar Skagafjarðar frá Fjallskilastjórn Hóla- og Viðvíkurdeildar þar sem óskað er eftir aðstoð landbúnaðarnefndar um skiptingu upprekstrar á hrossum á Kolbeinsdalsafrétt.  Bjarni kynnti afgreiðslu sem fram fór á almennum fundi um fjallskilamál í Hóla- og Viðvíkurdeild þann 05.05.1999.  Þar kom fram tillaga um hrossauppreksturinn og skiptingu.  Tillaga þessi féll á jöfnum atkvæðum og því hefur fjallskilastjórn leitað til landbúnaðarnefndar, með bréfi dags. 10.05.1999.  Þá kynnti Bjarni bréf dags. 08.05.1999 undirritað af Ólafi Sigurgeirssyni, inntak þess var umfjöllun um reglur um upprekstur hrossa á Kolbeinsdalsafrétt og atkvæðagreiðslu sem fram fór á fundi þann 5. maí sl.  Þá sagði Bjarni frá því að til fundarins væri boðað með tilliti til 20. gr. laga no. 6, 1986, um afréttarmálefni fjallskil og fleira, og upplýsingar um beitarréttindi í Kolbeinsdal dags. 5. júní 1998.  Þá kynnti Bjarni yfirlýsingu hreppsnefndar Hóla- og Viðvíkurhreppa dags. 6. maí 1998, vísast til hennar.  Þá kynnti Bjarni með myndvarpa ýmsar greinar úr lögum um fjallskil og afréttarmál, og kynnti þá möguleika sem eru í stöðunni og útskýrði þá mjög skilmerkilega fyrir fundarmönnum, m.a. áhrif ítölu, svo og ýmsar útfærslur á skiptingu hrossaupprekstrarins.  Síðan hvatti hann fundarmenn til að ræða þessi mál á þessum fundi og hvatti til að ná farsælli lendingu í málinu.  Þá vék Bjarni að 4. dagskrárlið og taldi rétt að kynna hann þar sem hann tengdist svo mjög lið 3 og hægt væri þá að ræða þá liði saman á eftir.  Var þar um að ræða að kynna tillögur um nýtingu Ásgarðs- og Kolkuóslands til hrossabeitar, sem var í 9 liðum og vísast til þeirra.  Lauk nú Bjarni máli sínu og hafði þá staðið í pontu á annan klukkutíma.  Hófust nú umræður um 3. og 4. lið dagskrár.  Til máls tóku:  Halldór Steingrímsson, Bjarni Maronsson, Jón Garðarsson.  Var nú tekið kaffihlé.  Að því loknu var fundi fram haldið og til máls tók:  Ólafur Sigurgeirsson. Fundarstjóri Símon Traustason las upp tillögu þá er fjallskilastjórn bar fram á fundi sem að framan greinir sem haldinn var um upprekstrarmál í Hóla- og Viðvíkurdeild þann 5. maí sl. tillagan var eftirfarandi:

"Almennur fundur um fjallskilamál haldinn að Hólum 5. maí 1999 samþykkir eftirfarandi:  Framvegis skulu gilda þær reglur um upprekstur hrossa í Kolbeinsdalsafrétt að fjöldi hrossa til að fá kvóta út á sé miðaður við 50 hross hámark samkvæmt skattframtali á jörð".

Til máls tóku:  Vésteinn Vésteinsson, Stefán Ólafsson hdl. gerði grein fyrir lagaleggu hliðinni á þessum málum.  Og svaraði nokkrum fyrirspurnum.  Þá tók til máls Bjarni Egilsson og svaraði fyrirspurnum og skýrði málin nánar.  Þá tóku til máls:  Steinþór Tryggvason, Bjarni Maronsson og lagði hann fram eftirfarandi tillögu:

"Almennur fjallskilafundur Hóla- og Viðvíkurhreppa hinna fornu haldinn að Grunnskólanum Hólum 25. júní 1999, samþykkir að fjallskilastjórn fari með og móti úthlutunarreglur fyrir hrossaupprekstur í Kolbeinsdal sumarið 1999.  Jafnframt er fjallskilastjórn falið að boða til almenns fjallskilafundar í haust, þar sem til sérstakrar umræðu verði hrossaaupprekstur sumarsins auk annara fjallskilamála."

Þá tóku til máls:  Halldór Steingrímsson, Jón Garðarsson, Árni Ragnarsson, Atli Traustason, Bjarni Egilsson svaraði nokkrum fyrirspurnum, m.a. um bókhalds uppgjör fjallskilasjóðs.  Stefán Ólafsson hdl. gerði grein fyrir og svaraði nokkrum fyrirspurnum m.a. um ítölu.  Til máls tóku Vésteinn Vésteinsson, Bjarni Egilsson, Stefán Ólafsson, Bjarni Maronsson.  Umræðum var nú lokið.  Fram kom hjá allnokkrum ræðumönnum að full ástæða væri að kanna hvernig ítala kæmi út á svæðinu þ.a.s. Kolbeinsdalsafrétt, og óskað var eftir skoðun á því máli.

Fundarstjóri bar nú upp tillögu Bjarna Maronssonar, var hún samþykkt með 12 atkv. engin mótatkvæði.  Bjarni Egilsson tók til máls og þakkaði mönnum fyrir gagnlegan fund.  Símon fundarstjóri þakkaði fundarmönnum fundarsetu og sleit fundi laust fyrir kl. 0100.

 

Símon E. Traustason                                                 Sigurður Haraldsson

Þórarinn Leifsson

Smári Borgarsson

Bjarni Egilsson