Fræðslunefnd

134. fundur 29. ágúst 2018 kl. 16:00 - 18:30 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Laufey Kristín Skúladóttir formaður
  • Elín Árdís Björnsdóttir varaform.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir ritari
  • Auður Björk Birgisdóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Herdís Á. Sæmundardóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs
  • Selma Barðdal Reynisdóttir fræðslustjóri
  • Bertína Guðrún Rodriguez sérfræðingur á fjölskyldusviði
Fundargerð ritaði: Bertína G. Rodriguez sérfræðingur á fjölskyldusviði
Dagskrá

1.Nemendafjöldi 2018 - 2019

1802082

Lagðar fram tölur um nemendafjölda í leik- og grunnskólum Skagafjarðar skólaárið 2018-2019. Nemendafjöldi er svipaður og skólaárið 2017-2018.
Hanna Dóra Björnsdóttir sat fundinn undir liðum 3-6

2.Viðbygging við Ársali

1808183

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur kappkostað að veita börnum niður í eins árs aldur leikskólavist í héraðinu og þannig koma til móts við foreldra. Þá hefur sveitarfélagið einnig veitt svo kallaðar foreldragreiðslur til foreldra sem hvorki eiga kost á leikskólavist né hjá dagforeldrum. Um nokkurt skeið hefur verið viðvarandi biðlisti við leikskólann Ársali á Sauðárkróki og jafnframt hefur verið örðugleikum bundið að fá dagforeldra til starfa svo anna megi þeim fjölda barna, sem þarfnast dagvistunar, með tilheyrandi vandræðum fyrir foreldra. Fræðslunefnd leggur til að brugðist verði við með því að ráðast í viðbyggingu við leikskólann Ársali á Sauðárkróki, yngra stig og hefja undirbúning að slíkri byggingu hið allra fyrsta. Málinu vísað til byggðarráðs.

3.Skólaakstur - leikskóli

1808157

Erindi frá foreldrum þar sem óskað er eftir að barn þeirra fái að aka með skólarútunni í leikskóla. Skv. reglum Sveitarfélagsins Skagafjarðar um skólaakstur í dreifbýli, 5. grein, er bifreiðastjóra ekki heimilt að taka aðra farþega í bílinn en grunnskólanemendur, svo sem börn í leikskóla, nema með sérstöku samþykki fræðslunefndar. Reglur Sveitarfélagsins Skagafjarðar um skólaakstur í dreifbýli byggja á lögum um grunnskóla nr. 91/2008 og reglum menntamálaráðuneytisins um skólaakstur í grunnskóla nr. 656/2009. Þar er kveðið á um skyldur sveitarfélaga til aksturs grunnskólabarna á milli heimilis og skóla sem m.a. fela í sér ábyrgð á öryggi, velferð og hagsmunum nemenda í skólaakstri. Þar af leiðir eru sveitarfélög með tryggingar hjá tryggingarfélögum gagnvart nemendum í grunnskóla en ekki gagnvart nemendum í leikskóla, enda ber sveitarfélögum ekki skylda til að annast akstur þeirra. Það er fyrst og fremst á þessum forsendum sem Sveitarfélagið Skagafjörður hefur sett sér þá reglu að bílstjórar sem annast skólaakstur grunnskólabarna taki ekki aðra farþega í skólabílana en þá einstaklinga sem sveitarfélagið er með tryggingar fyrir. Nefndin hafnar beiðninni á grundvelli þess sem að ofan greinir og almennra öryggissjónarmiða.
Anna Jóna Guðmundsdóttir og Anna Árnína Stefánsdóttir sátu fundinn undir lið 1-2.

4.Ályktun v/skólaaksturs barna úr Fljótum frá Íbúa- og átthagafélagi Fljóta

1807048

Lögð fram ályktun stjórnar íbúa- og átthagafélags Fljóta, þar sem ítrekuð er nauðsyn þess að tryggja öryggi skólabarna í Fljótum við skólaakstur. Áhyggjur félagsins lúta að því að börn í Fljótum þurfa að skipta um bíl við gatnamót Flókadalsvegar og telur félagið nauðsynlegt að komið verði upp lýsingu við gatnamótin. Einnig ítrekar félagið að mokstur verði tryggður á útskoti við gatnamótin, þannig að tryggt sé að skólabílar komist út af veginum en þurfi ekki að stoppa á veginum sjálfum svo börn komist á milli bíla. Fræðslunefnd þakkar ábendingar félagsins og tekur undir að aðstæður til að fara á milli bifreiða þarf að tryggja með ásættanlegum hætti. Nefndin felur sviðsstjóra fjölskyldusviðs og sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs að skoða aðstæður með tilliti til ofangreindra ábendinga stjórnar íbúa- og átthagafélags Fljóta.

5.Fyrirspurn vegna útboðs skólaaksturs

1806292

Lagt fram erindi foreldra í Fljótum um skólaakstur. Erindið er framhald erindis sem afgreitt var á síðast fundi fræðslunefndar. Í erindinu koma fram spurningar sem m.a. lúta að öryggi við skiptistöð í Fljótum. Sem svar við því er vísað í bókun hér að ofan sem varðar sama málefni. Að öðru leyti er vísað í útboðsgögn og reglur Sveitarfélagsins Skagafjarðar um reglur um skólaakstur í dreifbýli, þar sem m.a. er ákvæði um ábyrgð bifreiðastjóra og ástand bifreiða gagnvart aðstæðum þegar veður eru slæm.
Nefndin felur sviðsstjóra að ræða við bílstjóra um möguleika á öðrum útfærslum á akstursleiðinni og jafnframt fara ítarlega yfir öll öryggissjónarmið. Komi í ljós verulegir annmarkar á þessu fyrirkomulagi verður málið tekið upp að nýju.

6.Úttekt á grunnskólum Skagafjarðar

1808139

Lögð er fram tillaga um að gerð verði úttekt á grunnskólum Skagafjarðar. Úttektin taki bæði mið af rekstrarlegum þáttum skólanna sem og almennu skipulagi skólahalds í Skagafirði. Sveitarfélagið Skagafjörður leggur áherslu á að skólar í Skagafirði séu vel búnir á allan hátt og hafi á að skipa öflugum starfsmönnum á öllum sviðum. Það er trú fræðslunefndar að svo sé enda hafa skólar í Skagafirði skarað fram úr á mörgum sviðum. Það er engu að síður mikilvægt að vera vakandi yfir tækifærum til framþróunar enda rekstur grunnskóla afar mikilvægur þáttur í þjónustu sveitarfélaga við íbúa.

Fundi slitið - kl. 18:30.