Fræðslu- og menningarnefnd

37. fundur 14. september 2004 kl. 15:00 - 17:30 Í Ráðhúsi Skagafjarðar

Ár 2004, þriðjudaginn 14. september kom Fræðslu- og menningarnefnd saman til fundar í Ráðhúsi Skagafjarðar, kl. 15:00.
Mætt:  Gísli Árnason, Sigurður Árnason, Dalla Þórðardóttir fulltrúi Akrahrepps og Katrín María Andrésdóttir, sem ritaði fundargerð.
Einnig:  Rúnar Vífilsson fræðslu- og íþróttafulltrúi og Gunnar Sandholt sviðsstjóri fjölskyldu- og þjónustusviðs, sem sat fundinn undir lið nr. 1.  Þá sátu fundinn undir liðum nr. 1 – 6, Steinunn Arnljótsdóttir leikskólastjóri Birkilundar, Helga Sigurbjörns­dóttir leikskólastjóri Glaðheimum, Kristrún Ragnarsdóttir leikskólastjóri Furukoti og Anna Á. Stefánsdóttir leikskólastjóri út að austan. Undir lið nr. 7 – 11, Áskell Heiðar Ásgeirsson sviðsstjóri markaðs- og þróunarsviðs og undir lið nr. 7, Unnar Ingvarsson forstöðumaður Fræðaseturs og undir lið nr. 8, Sigríður Sigurðardóttir forstöðumaður Byggðasafns Skagfirðinga.

DAGSKRÁ:  

Skólamál - Leikskóli

1.   Erindi frá Guðbjörgu Jóhannesdóttur og Sigurði Páli Haukssyni varðandi leikskóladeild að Ægisstíg 7, dags. 23. ágúst 2004.

2.   Erindi frá foreldrafélagi leikskólans Brúsabæjar varðandi sumarlokun, dags. 26. ágúst 2004.

3.   Sumarlokanir leikskóla.

4.   Árvist, samþykkt Byggðarráðs frá 25.8.2004.

5.   Staða rekstrar 04.

6.   Önnur mál

Menningarmál:

 1. Erindi frá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga varðandi stofnun ljósmyndadeildar við safnið, dags. 9. sept. 2004.
 2. Erindi frá Byggðasafni Skagfirðinga vegna fornleifadeildar.
 3. Fyrirhugaðir tónleikar með lögum Erlu Þorsteinsdóttur.
 4. Beiðni um fjárstyrk frá Guðspekifélaginu dags. 15.4.2004.
 5. Önnur mál

AFGREIÐSLUR:

Skólamál - Leikskóli

 1. Lagt fram til kynningar bréf dags. 23. ágúst, undirritað af Guðbjörgu Jóhannesdóttur og Sigurði Páli Haukssyni, varðandi aðbúnað leikskólabarna í Krílakoti, Ægisstíg 7.  Sveitarstjóri hefur þegar svarað bréfriturum og var svarbréfið lagt fram til kynningar.

Rætt um húsnæðismál Krílakots.

 1. Tekið fyrir erindi dags. 26. ágúst 2004, undirritað af Sigríði Gunnarsdóttur f.h. foreldrafélags Brúsabæjar, leikskólans að Hólum. Í bréfinu er borin fram ósk um styttingu á sumarlokun leikskólans. Sjá afgreiðslu lið nr. 3.
 2. Rætt um sumarlokanir leikskóla. Ákveðið að ráðast í viðhorfskönnun meðal foreldra um óskir varðandi sumarlokanir leikskóla fyrir næsta sumar.
 3. Fræðslu- og menningarnefnd var falið að skilgreina þjónustu Árvistar nánar, skv. samþykkt Byggðaráðs 25. ágúst 2004. Ákveðið að boða til fundar um málefni Árvistar, með forstöðumanni, skólastjóra Árskóla og fræðslu- og íþróttafulltrúa og sviðsstjóra fjölskyldu- og þjónustusviðs.
 4. Lagt fram til kynningar stöðuyfirlit rekstrar, bókhaldslykill 04 – fræðslumál.
 5. Önnur mál.
  a)  Kristrún Ragnarsdóttir leikskólastjóri Furukoti lagði fram minnisblað með áhersluatriðum varðandi Furukot og Krílakot er tengjast fjarnámi starfsmanna, rekstri og húsnæðismálum.  Helga tók undir þær ábendingar sem fram komu í minnisblaðinu.

Menningarmál:

 1. Tekið fyrir erindi frá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga, dags. 9. september 2004, varðandi uppbyggingu ljósmyndadeildar við safnið. Nefndin tekur jákvætt í framkomnar hugmyndir og leggur til við Byggðarráð að samþykkt verði umbeðin fjármögnun á verkefninu, enda felist í því tekjumöguleikar til framtíðar. Erindinu vísað til Byggðarráðs.
 2. Tekið fyrir bréf, sem barst á tölvupósti 10. september 2004 frá Byggðasafni Skagfirðinga, vegna fornleifadeildar og hugmynda um framtíð Minjahúss. Fræðslu- og menningarnefnd lýsir ánægju með starfsemi fornleifadeildar og vísar hugmyndum um áframhaldandi uppbyggingu til gerðar fjárhagsáætlunar.  Formanni nefndarinnar og forstöðumanni Byggðasafnsins falið að útfæra nánar hugmyndir um framtíð Minjahússins.
 3. Formaður nefndarinnar gerði grein fyrir því að hópur tónlistarmanna hyggst halda tónleika þar sem efnisskráin mun innihalda lög sem Erla Þorsteinsdóttir hefur flutt. Rætt um mögulega aðkomu fræðslu- og menningarnefndar að verkefninu.
 4. Lögð fram styrkbeiðni frá Guðspekifélaginu, dags. 15. apríl 2004.  Nefndin telur sér ekki fært að verða við erindinu.
 5. Önnur mál.
  a) Lagt fram tilkynningar bréf frá Kvenfélagi Sauðárkróks, dags. 21. júní 2004. Í bréfinu er gerð stuttlega grein fyrir framkvæmd Dægurlagakeppninnar 2004 og færðar fram þakkir fyrir stuðning við keppnina.  Fræðslu- og menningarnefnd þakkar bréfið og óskar félaginu velfarnaðar.
  b) Sviðsstjóri markaðs- og þróunarsviðs kynnti fyrirhugaða heimsókn Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Skagafjörð 29. september n.k.

Fleira ekki tekið fyrir.  Fundi slitið kl. 17:30.