Fræðslu- og menningarnefnd

15. fundur 14. febrúar 2003 kl. 16:00 - 17:45 Á Löngumýri

Ár 2003, föstudaginn 14. febrúar 2003, kom fræðslu- og menningarnefnd saman til fundar að Löngumýri kl. 16:00.
Mætt:  Gísli Árnason, Sigurður Árnason, Dalla Þórðardóttir og Katrín María Andrésdóttir sem ritaði fundargerð.  Einnig: Rúnar Vífilsson skólamálastjóri, Gunnar Sandholt sviðsstjóri fjölskyldu- og þjónustusviðs og Ómar Bragi Stefánsson menningar-, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi.

Dagskrá:

 1. Árvist - húsnæði.
 2. Félagsheimilið Árgarður, tilnefning í húsnefnd.
 3. Bókhald félagsheimila.
 4. Náttúrugripasafn.
 5. Glaumbær, skipulag.
 6. Önnur mál.

Afgreiðslur:

 1. Rætt um húsnæðismál Árvistar.  Ákveðið að fela tæknideild og starfsmönnum fjölskyldu- og þjónustusviðs Skagafjarðar að vinna að því að tryggja húsnæði til framtíðar og afla nauðsynlegra leyfa fyrir starfseminni.
 2. Þórarinn Sverrisson tilnefndur í hússtjórn Árgarðs í stað Egils Örlygssonar, sem baðst lausnar frá stjórnarstörfum.  Ómari Braga falið að tilkynna breytinguna formlega.
 3. Rætt um bókhald félagsheimila.  Samningur við Leiðbeiningamiðstöðina rann út um sl. áramót.  Nefndin leggur til að sveitarstjóra og forseta sveitarstjórnar verði falið að ganga frá því að bókhaldsmál félagsheimila verði á einum stað og að finna aðila til verksins.  Lögð er áhersla á að auglýst verði eftir aðila til verksins fari svo að bókhaldið verði ekki unnið á skrifstofu Sveitarfélagsins.
 4. Rætt um málefni náttúrugripasafnsins í Varmahlíð.  Fram kom hugmynd um að hluti safnsins yrði vistaður á Náttúrustofu en aðrir gripir geymdir að Steinsstöðum fyrst um sinn.  Formanni nefndarinnar falið að ræða nánar við forstöðumann Náttúrustofu.
 5. Lagt fram til kynningar deiliskipulag fyrir Glaumbæ, vegna fyrirhugaðrar nýbyggingar.  Frestur til að skila inn athugasemdum er til 1. mars n.k.
 6. Önnur mál.
  a)   Bókasafnsmál.  Fram kom að færa þarf bókasafnið sem verið hefur í Miðgarði vegna annarar nýtingar á því rými, sem safnið hefur notað í Miðgarði.  Nefndin leggur til að bókakosturinn færist til skólabókasafnsins í Varmahlíð og Héraðsbókasafnsins. Svipað fyrirkomulag verði viðhaft með samvinnu skólabókasafns og lestrarsafns á Hofsósi. Formanni nefndarinnar falið að ganga frá málinu við Unnar Ingvarsson og aðra hlutaðeigandi.
  b)  Tekið fyrir bréf dags. 13. febrúar 2003, varðandi beiðni um skólavist í Árskóla.  Nefndin tekur jákvætt í beiðnina að því gefnu að fyrir liggi skriflegt samþykki forráðamanna.
  c)  Ákveðið að auglýsa eftir styrkumsóknum, vegna úthlutana úr menningarsjóði 2003. Umsóknarfresturinn til 10. mars.  Ómari Braga falið að annast auglýsinguna.
  d)   Næsti fundur ákveðinn fimmtudaginn 6. mars kl. 16:00.  Almennt verði framvegis fundað í nefndinni á þriggja vikna fresti, nema brýn erindi kalli á tíðari fundi.
  e)   Rætt um gerð þriggja ára áætlunar.  Ákveðið að halda aukafund vegna áætlunargerðarinnar í Ráðhúsinu, n.k. miðvikudag, 19.  febrúar, kl. 16:00.

Fleira ekki tekið fyrir.  Fundi slitið kl. 17:45.