Félagsmála- og tómstundanefnd

12. fundur 09. maí 2023 kl. 14:00 - 16:15 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Eyrún Sævarsdóttir formaður
  • Sigurður Hauksson varaform.
  • Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir áheyrnarftr.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir varam.
Starfsmenn
  • Herdís Á. Sæmundardóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs
  • Þorvaldur Gröndal frístundastjóri
  • Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir félagsmálastjóri
  • Ragnar Helgason sérfræðingur á fjölskyldusviði
Fundargerð ritaði: Herdís Á Sæmundardóttir
Dagskrá
Bryndís Lilja Hallsdóttir nýr sviðssjóri fjölskyldusviðs sat fundinn og var boðin velkomin til starfa.

1.24. unglingalandsmót UMFÍ 2023

2110015

Lagt fram til kynningar minnisblað frá frístundastjóra þar sem farið er yfir stöðu mála varðandi Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður á Sauðárkróki dagana 3.- 6. ágúst.
Nefndin fagnar góðum gangi í undirbúningi og væntir þess að mótið og umgjörð þess verði eins og best verður á kosið og vísar málinu til kynningar hjá Ungmennaráði Skagafjarðar.

2.Staða frístundamála innan Skagafjarðar

2305042

Lagt fram minnisblað frá frístundastjóra þar sem farið er yfir stöðu frístundamála hjá sveitarfélaginu. Í minnisblaðinu er talnaefni um iðkendur, nýtingu húsa og eigna sveitarfélagsins og fleira. Mikil gróska er í skipulögðu frístunda- og íþróttastarfi í héraðinu, þar sem iðkendum hefur fjölgað síðustu ár í takt við hækkun Hvatapeninga. Aðstaða er almennt góð og mannvirkin mjög vel nýtt.
Það er gleðilegt að sjá hversu mikil gróska er í skipulagðri frístundaiðkun ásamt því hversu mörg börn og ungmenni nýta sér íþróttaiðkun hér í Skagafirði. Það er jafnframt gleðilegt að sjá hversu Hús Frítímans er vel nýtt. Skipulagaðar frístundir gegna gríðarlega mikilvægu uppeldis hlutverki í formi forvarna, vellíðan og þroska barna og ungmenna. Á Íslandi teljast allir einstaklingar undir 18 ára aldri vera börn. Ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna krefjast frekari stefnumótunar til framtíðar og samkvæmt skýrslu um stöðu frístundamála í Skagafirði þá þurfum við að efla og skapa frekari tækifæri til frístundaiðkunnar í dreifbýli Skagfjarðar ásamt því að koma á skipulögðu frístundastarfi fyrir 16 ára og eldri.
Nefndin vísar erindinu til Ungmennaráðs Skagafjarðar til kynningar.

3.Ungmennahús

2305045

VG og Óháð leggja til að Félagsmála- og tómstundanefnd finni úrlausnir og fjármagn til stofnunar ungmennahús fyrir 16-25 ára aldur fyrir næsta fjárhagsár.
Nefndin tekur ekki afstöðu til málsins að svo stöddu en er sammála um að ræða málið frekar á næstu fundum sínum. Nefndin samþykkir einnig að óska eftir umsögn Ungmennaráðs Skagafjarðar um málið.
Málinu frestað.

4.Tillaga að breytingum á reglum um húsnæðismál Skagafjarðar

2305044

VG og Óháð leggja til að grein nr 4. í reglum um húsnæðismál Skagafjarðar verði breytt þannig að á fast grunnverð verði settur afsláttur vegna staðsetningar annars vegar og afsláttur vegna ástands hins vegar.
Þannig sé veittur afsláttur á grunnverði ef íbúðir eru staðsettar fjarri þjónustu og eins ef ástand þeirra er ekki fullnægjandi. Samkvæmt 4. grein reglna þá er leiguverð per fermeter það sama fyrir allar félagslegar íbúðir Skagafjarðar, sama hvar hún er staðsett í firðinum eða í hvernig ásigkomulagi hún er. Óskum við jafnframt eftir því að eignarsjóður geri úttekt á íbúðum í eigu Sveitarfélagsins og flokki þær eftir ástandi.

Tillaga VG og óháðra borin undir atkvæði og felld með tveimur atkvæðum á móti einu.

Meirihluti félagsmála- og tómstundanefndar hafnar tillögunni og óskar bókað:
Sveitarfélagið Skagafjörður hefur lagt ríka áherslu á að jafna þjónustu svo sem kostur er á milli íbúa héraðsins. Þannig má benda á að gjaldskrá hitaveitu er hin sama per orkueiningu óháð staðsetningu og gjaldskrá sorps er hin sama alls staðar í héraðinu. Það skyti því skökku við ef sveitarfélagið færi að taka upp ólíka gjaldskrá fyrir húsnæði eftir staðsetningu þess. Í þessu sambandi má geta þess að þeir sem eiga rétt á félagslegu húsnæði njóta niðurgreiðslu á leigu eftir tekju- og eignamörkum sínum.

Þá má jafnframt benda á að í 4. gr. reglna um húsnæðismál í sveitarfélaginu Skagafirði er ákvæði þess efnis að sveitarstjóri geti tekið ákvörðun um lækkun leiguverðs fasteignar með tilliti til ástands hennar að undangenginni úttekt og umsögn eignasjóðs og hefur því ákvæði verið beitt í fáein skipti á liðnum árum.

Fulltrúar VG og Óháðra ásamt Byggðalista óska bókað:
Félagsmála- og tómstundanefnd fer með stefnumörkun í málaflokknum og ber okkur því að verja leigjendur og sjá til þess að sanngirni ríki. Önnur sveitarfélög hafa tekið upp þær reglur að gefa afslætti vegna ástands og/eða staðsetningu. Það eru því greinilega til lausnir og aðferðir til úrlausna ef viljinn er fyrir hendi.

5.Orlof húsmæðra 2023

2304124

Samkvæmt upplýsingum frá Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu skal framlag sveitarfélaga til orlofsnefnda á hverju svæði vera minnst kr. 141,01 fyrir hvern íbúa sveitarfélagsins. Framlag þetta skal greiða orlofsnefnd viðkomandi orlofssvæðis fyrir 15. maí nk. sbr. 5. gr. laga nr. 53/1972.

6.Öldungaráð Skagafjarðar fundir

2111265

Lögð fram til kynningar 2. fundargerð ráðsins sem haldinn var 17.apríl sl. Fundargerðir ráðsins eru birtar á heimasíðu Skagafjarðar.

7.Framtíðarsýn í málefnum eldra fólks - Öldungaráð

2304079

Lögð fram eftirfarandi beiðni Öldungaráðs Skagafjarðar til félagsmála- og tómstundanefndar: "Öldungaráð beinir því til sveitarfélagsins að fara í stefnumótun í málefnum eldra fólks í samstarfi við Félag eldri borgara. Farið verði í upplýsingaöflun og þarfagreiningu í haust ". Félagsmála- og tómstundanefnd fagnar erindinu og samþykkir að fara í stefnumótun í málefnum eldra fólks í samstarfi við Félag eldri borgara í Skagafirði á komandi hausti. Félagsmálastjóra er falið að koma með minnisblað um mögulega framkvæmd vinnunar til nefndar í september.

8.Framkvæmdaráð málefni fatlaðs fólks á Nl. vestra fundargerðir

2304175

Lögð fram til kynningar 4. fundargerð framkvæmdaráðs frá 16.mars sl.

9.Fagráð - fjallað um og veitt ráðgjöf um einstök mál

2107015

Lögð fram til kynningar 5. fundargerð fagráðs málefni fatlaðs fólks frá 5.apríl sl.

10.Samráð; Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2023-2027

2304136

Lögð fram til kynningar þingsályktunartillaga frá mennta- og barnamálaráðherra um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar. Tillagan felur í sér aðgerðir í 10 liðum sem ætlað er að bæta barnaverndarstarf á landsvísu og að börn verði sett í öndvegi í allri nálgun.

11.Umsagnarbeiðni; Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum í þágu barna (samþætting þjónustu)

2304138

Lagt fram til kynningar frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum í þágu barna. Breytingarnar ná einkum til laga um skólahalds sem og íþróttalaga og æskulýðslaga.

Fundi slitið - kl. 16:15.