Byggðarráð Skagafjarðar

433. fundur 08. maí 2008 kl. 13:15 - 15:00 í Ráðhúsinu
Nefndarmenn
  • Gunnar Bragi Sveinsson formaður
  • Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir varaformaður
  • Páll Dagbjartsson aðalmaður
  • Bjarni Jónsson áheyrnarfulltrúi
  • Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Endurskoðun samninga við Flugu hf

0801081

Erindi vísað frá 124. fundi félags- og tómstundanefndar.
Lagður fram samningur milli Flugu hf og sveitarfélagsins til fjögurra ára um m.a. kaup á allt að 540 tímum á ári fyrir íþróttafélög, Iðju og sérdeild Árskóla. Kostnaður vegna samningsins er 4.500.000 kr. á ári sem verðbætast.
Byggðarráð staðfestir samninginn og samþykkir að hækka fjárveitingu á málaflokki 06 um kr. 2.000.000 vegna samningsins í heild. Fjármögnun vísað til endurskoðunar fjárhagsáætlunar 2008.

2.Fasteignagjöld Flugu hf 2008

0802052

Frestað erindi frá 424. fundi byggðarráðs.
Byggðarráð sér sér ekki fært að verða við erindinu um lækkun á álögðum fasteignaskatti 2008.

3.Samþykkt um stjórn og fundarsköp - breytingar

0802094

Byggðarráð samþykkir að vísa eftirfarandi breytingu á 42. grein, 3. mgr. í Samþykkt um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins til sveitarstjórnar: Í stað orðsins "fulltrúa" komi "kjörinna fulltrúa".

4.Gjaldskrá vegna refa- og minkaveiða

0805001

Erindi vísað frá 133. fundi landbúnaðarnefndar.
Byggðarráð staðfestir afgreiðslu landbúnaðarnefndar.

5.Árskóli - menningarhús

0804018

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Lagt er til að væntanlegt menningarhús á Sauðárkróki rísi norðan nýrrar viðbyggingar við Árskóla með tengibyggingu milli skóla og menningarhúss. Með því er ætlunin að nýta sem best báðar byggingarnar og skapa skóla- og menningarstarfi bestu fáanlegu aðstöðu.
Byggðaráð samþykkir að fela sveitarstjóra að óska eftir fundi með menntamálráðherra vegna aðkomu ríkisins að byggingu menningarhúss á Sauðárkóki.

Greinargerð:
Þegar ríkisstjórnin ákvað 1995 að styrkja byggingu menningarhúss á Sauðárkróki kom upp sú hugmynd að byggt yrði menningarhús á hafnarsvæðinu á Sauðárkróki. Sú hugmynd var bæði sett fram í gamni og alvöru. Árið 2004 ákvað sveitarstjórn að óska eftir því að ákvörðun um menningarhús á Sauðárkróki yrði útfærð á þann hátt að 100 mkr. yrðu settar í endurbyggingu félagsheimilisins Miðgarðs með áherslu á tónlistarflutning. Á sama tíma komu fram hugmyndir um að byggja við Safnahúsið á Sauðárkróki og þar yrði lög áhersla á listir,fræðastarf, bókasafn félagsstarf o.þ.h. Í þeim hugmyndum var ekki horft til sviðslista né kvikmyndasýninga. Skv. samningi við Menntamálráðuneytið var gert ráð fyrir 60 mkr. framlagi frá ríkinu til endurbóta á Miðgarði og tæplega 220 mkr. framlagi til menningarhúss á Sauðárkróki eða samtals um 280 mkr.

Til margra ára hefur legið fyrir brýn þörf á að byggja við Árskóla, þar vantar kennslustofur, fundar og samkomusal, mötuneyti, félagsaðstöðu. Fyrir nokkrum árum var unnin tillaga að viðbyggingu við skólann sem m.a. gerði ráð fyrir byggingu hátíðarsalar og kennsluálmu.Um svipað leiti sem hafist var handa við hönnun Miðgarðs kom fram hugmynd um hvort skynsamlegt gæti verið að byggja nýtt menningarhús tengt Árskóla og ná fram samnýtingu á húsnæði menningarhússins og skólabyggingunni.
Hugmyndin var borin undir forsvarsmenn Árskóla, Tónlistarskólans, Héraðsskjalasafnsins, Héraðsbókasafnsins og Byggðasafnsins sem tölu skynsamlegt að skoða það vandlega.

Hönnuðir að Árskóla voru því fengnir til að koma með grófa hugmynd að því með hvaða hætti þessi starfsemi gæti farið saman. Forsvarsmenn áðurnefndra stofnana fóru í þarfagreiningu um rými og starfsaðstöðu og var núverandi hugmyndin unnin útfrá þeim. Talið var mikilvægt að gera ráð fyrir fjölnotasal í menningarhúsinu sem nýst gæti sem leikhús, kvikmyndasalur, kennslusalur, funda og ráðstefnusalur. Gert er ráð fyrir tónlistarskólanum í húsinu, með því verður búið að ná starfsemi Árskóla og tónlistarskólans undir eitt þak. Forsvarsmenn áðurnefndra stofnana hafa lýst sig fylgjandi því að hugmyndin verði að veruleika.

Rétt er að taka fram að bygging menningarhúss norðan viðbyggingar Árskóla gengur verulega á æfingasvæði íþróttavallarins. Í stað þess æfingasvæðis sem víkur þarf að gera ráð fyrir nýju svæði í tengslum við íþróttavöllinn sem nýtist til æfinga, knattspyrnumóta oþh. Benda má á kosti þess að nýta hluta af nöfunum í þetta.


Fyrir liggur að kosta þarf miklu til viðhalds á því húsnæði sem nú hýsir áðurnefnt menningarstarf. Áætlað að það kosti um 170 mkr. að gera viðbætur á Safnahúsinu og gera það aðgengilegt. Ástand Bifrastar þarf ekki að tíunda það þekkja flestir. Barnaskólahúsið við Freyjugötu þarfnast verulegs viðhalds auk þess sem verulegt hagræði hlýst af því að vera með Árskóla undir einu þaki með tónlistarskólanum. Ljóst er viðbygging Árskóla og bygging menningarhúss mun kosta miklar fjárhæðir og því mikilvægt að huga að fjármögnun samhliða frekari hönnun og umræðum.

Byggðaráð samþykkir með tveimur atkvæðum meirihlutans að menningarhúsið á Sauðárkóki rísi norðan nýrrar viðbyggingar Árskóla. Páll Dagbjartsson greiðir atkvæði á móti og mun gera grein fyrir afstöðu Sjálfstæðisflokksins á næsta sveitarstjórnarfundi.

Bjarni Jónsson óskar bókað: Undirritaður hefur vissar efasemdir um málið eins og það er undirbúið og framsett. Sýna þarf raunsæi gagnvart fjárhagslegri getu sveitarfélagsins til að ráðast í nýjar stórar framkvæmdir af þessu tagi og skuldbindingar þeirra vegna á meðan aðrar brýnar framkvæmdir bíða. Þá gæti þessi dýra nálgun orðið til að tefja nauðsynlega viðbyggingu við Árskóla. Frekari grein mun verða gerð fyrir afstöðu VG á sveitarstjórnarfundi.

6.Ársfundur FSA 2008

0805009

Lagt fram til kynningar boð um ársfund Sjúkrahússins á Akureyri, 8. maí 2008.

Fundi slitið - kl. 15:00.