Byggðarráð Skagafjarðar

480. fundur 11. júní 2009 kl. 10:00 - 12:19 í Ráðhúsi, Skr.
Nefndarmenn
  • Þórdís Friðbjörnsdóttir formaður
  • Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir varaform.
  • Páll Dagbjartsson aðalm.
  • Bjarni Jónsson áheyrnarftr. VG
  • Guðmundur Guðlaugsson sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Engilráð Margrét Sigurðardóttir, skjalastjóri.
Dagskrá

1.Samningur um skammtímafjármögnun

0906026

Lögð fram drög að samkomulagi milli Sveitarfél. Skagafjarðar og Skagafjarðarveitna, dags. 11. júní 2009, um skammtímalán til veitnanna að upphæð allt að kr. 60.000.000,- til 31. des. 2010. Skammtímalán þetta er veitt til uppgreiðslu á yfirdráttarlánum Skagafjarðarveitna í banka og ætlað að létta á heildarvaxtagreiðslum sveitarfélagsins og stofnana þess þegar sú staða er uppi að lausafjárstaða Sveitarsjóðs leyfir. Sveitarsjóður hefur heimild til að innkalla lánsféð eða hluta þess hvenær sem er á lánstímanum, enda tryggt að Skagafjarðarveitur ehf. hafi áfram aðgang að yfirdráttarláni. Um leið og aðstæður leyfa geta Skagafjarðarveitur síðan fengið fjármagn skv. samningnum innan lánstímans á ný. Byggðarráð samþykkir erindið.
Páll Dagbjartsson vék af fundi við afgreiðslu þessa liðar.

2.Lánasj.sv.fél.- Lánsumsókn v/bygg.leikskóla við Árkíl, Sauðárkróki

0811028

Á fundi byggðarráðs nýverið veitti ráðið sveitarstjóra heimild til að ganga frá lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Sveitarstjóri og fjármálastjóri hafa verið að kanna hvort sveitarfélaginu bjóðist mögulega hagstæðari lánskjör annars staðar á láni af þessari stærðargráðu. Var lauslega frá því greint þegar heimildin var veitt. Virðist nú sem okkur bjóðist möguleg lánskjör sem eru hagstæðari en það sem Lánasjóðurinn getur boðið okkur. Í ljósi framangreinds veitir byggðarráð sveitarstjóra heimild til semja um lántöku við annan aðila en Lánasjóð sveitarfélaga um allt að 150 millj. króna, sé það mat hans, að höfðu samráði við endurskoðanda, að boðin séu hagstæðari lánskjör. Samþykkt með tveimur atkvæðum.
Páll Dagbjartsson óskar bókað: "Ég ítreka fyrri bókun okkar fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að við teljum sveitarfélagið ekki ráða við auknar lántökur við óbreyttar aðstæður. Allar lántökur nú eru alveg á ábyrgð meirihlutans. Því sit ég hjá."
Bjarni Jónsson óskar bókað: "Allar ákvarðarnir um frekari lántökur eru á ábyrgð meirihlutans."

3.Bygging leikskóla við Árkíl 2 á Sauðárkróki

0808037

Hinn 10. júní 2009 var opnunarfundur verðkönnunartilboða í næsta áfanga byggingar nýs leikskóla við Árkíl, uppsteypu húss. Eitt tilboð barst frá Árkíl ehf, kt. 670509-2140. Heildarupphæð tilboðsins er kr. 84.026.570,-, sem er 98,29% af kostnaðaráætlun hönnuða. Byggðarráð samþykkir með tveimur atkvæðum að fela sveitarstjóra að ganga til samninga við tilboðsgjafa um verkið á grundvelli tilboðsins.
Páll Dagbjartsson óskar bókað að hann sitji hjá við afgreiðslu þessa liðar vegna skorts á upplýsingum í undirbúningi málsins.
Bjarni Jónsson leggur fram bókun:
"Undirbúningur og framkvæmd þessa verks einkennist af samráðsleysi við minnihlutann. Vegna skorts á gögnum og upplýsingum hefur undirritaður ekki forsendur til að taka afstöðu til tillögu meirihlutans."

4.Árskóli - viðbygging - Tilboð KS v framkvæmda og fjármögnunar

0906024

Lagt fram bréf, dags. 4. júní 2009, frá Kaupfélagi Skagfirðinga þar sem lýst er vilja til að byggja lokaáfanga Árskóla. Jafnframt býðst kaupfélagið til að lána að fullu fjármagn er þarf á byggingartímanum án vaxtaendurgjalds. Meirihluti byggðarráðs fagnar framkomnu tilboði kaupfélagsins og þakkar þann áhuga er félagið sýnir uppbyggingu skólamála í héraði. Sveitarstjóra ásamt forseta sveitarstjórnar og formanni byggðarráðs falið að ræða við tilboðsgjafa um málið og hvað í tilboði félagsins felst.
Páll Dagbjartsson óskar bókað: "Ég vísa í fyrri yfirlýsingar um það að frekari lántökur af hálfu sveitarfélagsins koma ekki til greina nú, skiptir þar engu hver lánskjörin eru. Öll lán þarf að endurgreiða og tek ég því ekki afstöðu til erindis forsvarsmanna KS."
Bjarni Jónsson leggur fram bókun: "Undirritaður telur sveitarfélagið ekki nú hafa bolmagn til að ráðast í viðbótarlántöku af þeirri stærðargráðu er erindið tekur til."

5.Eigendafundur Norðurár bs 2009

0906017

Lagt fram fundarboð frá Norðurá bs en eigendafundur verður haldinn að Hótel Varmahlíð mánud. 15. júní 2009 og hefst kl. 13:00.
Lögð er áhersla á að sem flestir sveitarstjórnarfulltrúar sjái sér fært að mæta á þennan fund og fara þeir hlutfallslega með atkvæðisrétt sveitarfélagsins. Einnig er æskilegt að fulltrúar skipulags- og byggingarnefndar og umhverfis- og samgöngunefndar mæti á fundinn.

6.Aðalgata 16b - ósk um leigu: Maddömurnar

0906030

Lagt fram bréf frá hópi kvenna: Maddömunum, sem óska eftir að taka Aðalgötu 16b á leigu fyrir starfsemi sína. Yrði leigan greidd með endurbótum á húsinu, í samstarfi við Húsafriðunarnefnd, sveitarfélagið og byggðasafnið. Fyrir liggur jákvæð afstaða forstöðumanns Byggðasafns Skagfirðinga.
Byggðarráð samþykkir erindið en tekur fram að ekki er fyrirhugað að fara í endurbætur á húsinu og er því leyfið gefið án skuldbindinga af hálfu sveitarfélagsins.

7.Rafrænar kosningar - tilraunaverkefni

0906018

Lagt fram bréf frá Samgönguráðuneytinu, dags. 28. maí 2009, þar sem kynnt er tilraunaverkefni Ríkisstjórnar Íslands um rafrænar kosningar, að hluta eða að öllu leyti, í tveimur sveitarfélögum í sveitarstjórnarkosningum í maí 2010. Óskað er eftir viðbrögðum frá þeim sveitarfélögum, sem hafa áhuga á að taka þátt í tilraunaverkefninu.
Byggðarráð samþykkir að óska ekki eftir þátttöku í verkefninu.

8.Umsókn um afnot af íþróttahúsinu Sauðárkróki

0905050

Lagt fram bréf, dags. 28. maí 2009, frá Sólveigu B. Fjólmundsdóttur þar sem hún, f.h. Töfratóna Ævintýrakistunnar, óskar eftir styrk í formi húsaleigu og aðstoðar starfsfólks við uppsetningu sviðs og við frágang vegna sýningarhalds þ. 17. júní n.k. í íþróttahúsinu á Sauðárkróki.
Byggðarráð sér sér ekki fært að verða við styrkbeiðninni.

9.Opnir dagar 2009 í Brüssel

0906016

Lagður fram til kynningar tölvupóstur, dags. 2. júní 2009, frá Samb. ísl. sveitarfélaga, um Opna daga Evrópusambandsins 2009, sem haldnir verða í Brussel 5.-8. okt. n.k.

10.Styrktarsjóður EBÍ 2009

0906020

Lagt fram til kynningar erindi frá Styrktarsjóði EBÍ. Sjóðurinn styrkir með fjárframlögum sérstakar athuganir eða rannsóknir á ýmsum þróunarþáttum í atvinnulífi, samgöngum, fræðslu- og menningarmálum í aðildarsveitarfélögum. Sveitarfélög geta framselt umsóknarrétt sinn til einstaklings eða félags. Umsóknarfrestur er til loka ágúst nk. Byggðarráð hvetur nefndir og stofnanir sveitarfélagsins til að sækja um í sjóðinn.

11.Ársþing SSNV 2009, nr. 17

0901030

Lagt fram til kynningar bréf frá Sambandi sveitarfélaga á Norðurlandi vestra varðandi 17. ársþing SSNV, sem haldið verður 21.-22. ágúst 2009 í Menningarhúsinu Miðgarði, Skagafirði. Tilkynna skal um þingfulltrúa fyrir 1. júlí n.k.

Fundi slitið - kl. 12:19.