Byggðarráð Skagafjarðar

58. fundur 16. ágúst 2023 kl. 13:30 - 14:15 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Einar Eðvald Einarsson formaður
  • Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir varaform.
  • Álfhildur Leifsdóttir aðalm.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Dagskrá

1.Strandveiðar

2307075

Lögð fram ályktun Drangeyjar - smábátafélags Skagafjarðar, um stöðvun strandveiða 2023.
Byggðarráð Skagafjarðar tekur undir með Drangey - smábátafélagi Skagafjarðar, að ólíðandi er að veiðitími sé með skyndilegri stöðvun tekinn af strandveiðisjómönnum á Norðurlandi þriðja árið í röð vegna þess að potturinn er búinn áður en verðmætasti fiskurinn kemur norður fyrir land. Það er grundvallaratriði að jafnrétti verði aukið á milli byggðarlaga, tækifæri jöfnuð til að sækja í þann heildarpott sem úthlutað er til strandveiða og takmörkuðum gæðum þannig skipt á réttlátari hátt á milli svæða en nú er. Mikilvægt er að Alþingi endurskoði núverandi fyrirkomulag með framangreint í að markmiði.

2.Lántaka Norðurár bs.

2307155

Lagt fram erindi frá stjórn Norðurár bs þess efnis að sveitarfélagið veiti byggðasamlaginu einfalda ábyrgð á allt að 170 milljón króna láni frá Lánasjóði sveitarfélaga til að fjármagna stækkun urðunarstaðarins í Stekkjarvík.
Byggðarráð Skagafjarðar vísar málinu til sveitarstjórnar og leggur til að hún samþykki eftirfarandi bókun:
Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkir hér með að veita einfalda ábyrgð vegna lántöku Norðurár bs hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð allt að 170.000.000 kr. til allt að 16 ára. Er ábyrgð þessi veitt sbr. heimild í 2. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og er hún óskipt (in solidum) gagnvart kröfuhafa, en innbyrðis skiptist hún í hlutfalli við eignarhluti í Norðurá bs. Til tryggingar ábyrgðinni standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Ábyrgðin tekur til allra greiðslna sem og hvers kyns kostnaðar sem hlýst af vanskilum. Er lánið tekið til gerðar urðunarstaðarins Stekkjarvíkur við Sölvabakka sem fellur undir lánshæf verkefni sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Sveitarstjórn Skagafjarðar skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda Norðurár bs. til að breyta ekki ákvæði samþykkta Norðurár bs sem leggur hömlur á eignarhald að félaginu að því leyti að félagið megi ekki fara að neinu leyti til einkaaðila.
Fari svo að Skagafjörður selji eignarhlut í Norðurá bs. til annarra opinberra aðila, skuldbindur sveitarfélagið Skagafjörður sig til að sjá til þess að jafnframt yfirtaki nýr eigandi á sig ábyrgð á láninu að sínum hluta.
Jafnframt er Sigfúsi Inga Sigfússyni, sveitarstjóra veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að staðfesta f.h. Skagafjarðar veitingu ofangreindrar ábyrgðar og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast veitingu tryggingar þessarar.

3.ADHD samtökin - Ósk um samstarf

2308009

Lagt fram erindi, dags. 2. ágúst 2023, frá ADHD samtökunum þar sem þau óska eftir samstarfi við sveitarfélagið Skagafjörð og styrk að upphæð allt að 250 þúsund krónur til að auka fræðslu og þjónustu í sveitarfélaginu um ADHD og fyrir fólk með ADHD. Fram kemur í erindinu að útibúi á vegum samtakanna séu starfrækt á Akureyri, Vestmannaeyjum, Vesturlandi, Austurlandi, Suðurlandi og á Suðurnesjum.
Byggðarráð getur ekki orðið við erindinu að þessu sinni og samþykkir að synja því.

4.Samráð; Drög að húsnæðisstefnu til fimmtán ára og aðgerðaáætlun til fimm ára (hvítbók um húsnæðismál)

2307113

Innviðaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 139/2023, „Drög að húsnæðisstefnu til fimmtán ára og aðgerðaráætlun til fimm ára (hvítbók um húsnæðismál)“. Umsagnarfrestur er til og með 04.09. 2023. Málið var áður á dagskrá 57. fundar byggðarráðs Skagafjarðar.
Byggðarráð Skagafjarðar fagnar drögum að húsnæðisstefnu, framtíðarsýn og markmiðum. Áherslur á aukið framboð á hagkvæmum íbúðum með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði fyrir fólk undir tilteknum tekju- og eignamörkum á sama tíma og horft er til áherslna sem geta aukið flækjustig og haft hærri kostnað í för með sér, samanber strangar kröfur til byggingarefna og lífsferilsgreininga fyrir byggingar, ríma þó líklega ekki saman. Byggðarráð lýsir sig aftur á móti sérstaklega sammála aðgerðum sem ætlað er að ýta undir að íbúðum í þéttbýli sem ekki eru nýttar til fastrar búsetu verði frekar nýttar sem slíkar í framtíðinni, meiri skilvirkni hlutdeildarlána, endurskoðun og einföldun ferla í skipulags- og byggingarmálum þegar kemur að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, aukinni réttindavernd neytenda vegna byggingargalla og auknum áherslum á aðgengi fyrir alla, svo nokkur atriði séu nefnd.
Byggðarráð vekur jafnframt athygli á því að víðast hvar á landsbyggðinni eru íbúðarhús byggð af einstaklingum eða íbúðafélögum, þar sem ekki er verktökum til að dreifa sem eru í þeirri starfsemi að byggja íbúðir til sölu. Horfa þarf sérstaklega til aukinna hvata til að stuðla að fjölgun íbúða sem verktakar byggja á eigin ábyrgð til endursölu og/eða að hafa það einfalt fyrir einstaklinga að semja um hlutdeildarlán á þeim svæðum þar sem verktakar eru ekki leiðandi afl í byggingu slíkra húsa.

Fundi slitið - kl. 14:15.