Byggðarráð Skagafjarðar

1014. fundur 11. maí 2022 kl. 11:30 - 12:58 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Gísli Sigurðsson formaður
  • Stefán Vagn Stefánsson varaform.
  • Ólafur Bjarni Haraldsson aðalm.
  • Álfhildur Leifsdóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Samkomulag um menningarhús í Skagafirði

1909244

Lagt fram samkomulag við menningar- og viðskiptaráðuneytið um byggingu menningarhúss í Skagafirði sem felst í endurbótum á Safnahúsi Skagfirðinga og nýbyggingu við það. Áætlaður framkvæmdakostnaður er 1.434 mkr. Hlutur sveitarfélaganna nemur 40% og ríkisins 60%.

Álfhildur Leifsdóttir (Vg og óháð) óskar bókað:
Að reisa menningarhús er kostnaðarsöm framkvæmd fyrir sveitarfélagið þrátt fyrir aðkomu ríkisins. Það er stefna VG og Óháðra að við stærri framkvæmdir eins og byggingu menningarhúss sé leitað eftir vilja íbúanna, bæði hvað varðar notkunargildi og staðsetningu. Talsvert er liðið bæði frá þarfagreiningu og ákvörðun staðsetningar menningarhússins og því full ástæða til að endurskoðunar á hvoru tveggja svo húsið þjóni sem bestum tilgangi fyrir sem flesta.
VG og óháð leggja því til að staðsetning og notkun á væntanlegu menningarhúsi verði lögð fram til íbúakosninga og íbúar fái þannig hlutdeild í ákvarðanatökunni.

Ólafur Bjarni Haraldsson (L) óskar bókað:
Samningur þessi ber þess merki að þetta er síðasti fundur fyrir kosningar. Við höfum haft innan við sólahring til þess að lesa yfir innihald samningsins, en þegar um svo stórt og flókið mál er að ræða þá er eðlilegt að við gefum okkur þann tíma sem við teljum okkur þurfa. Við eigum að vanda okkur í okkar störfum, hvort sem það eru að koma kosningar eða ekki.

Gísli Sigurðsson (D) og Stefán Vagn Stefánsson (B) leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihluti byggðarráðs fagnar þeim áfanga að nú sé búið að samþykkja samning um menningarhús á Sauðárkróki. Umræddur samningur er búinn að vera lengi í burðarliðnum, drög að samningnum hafa legið fyrir frá því 2019 og hefði átt að vera tilbúinn fyrir löngu síðan. Þarfagreiningu er lokið og staðsetning við Safnahúsið á Sauðárkróki liggur fyrir samkvæmt samningnum. Þar tengjum við saman núverandi starfsemi safnahúss og nýs menningarhúss. Menningarhús á Sauðárkróki á eftir að verða mikil lyftistöng fyrir menningu í Skagafirði sem og að þar er komin varanleg lausn á varðveislurými Byggðasafns Skagfirðinga. Nú er biðin á enda eftir menningarhúsi á Sauðárkróki og hægt að fara að hefjast handa en áætlanir gera ráð fyrir að framkvæmdum ljúki árið 2025. Meirihluti byggðarráðs óskar íbúum Skagafjarðar til hamingju með áfangann.

Tillaga Vg og óháðra um að staðsetning og notkun á væntanlegu menningarhúsi verði lögð fram til íbúakosninga og íbúar fái þannig hlutdeild í ákvarðanatökunni borin upp til atkvæða. Tillagan er felld með þremur atkvæðum.
Byggðarráð samþykkir samninginn með tveimur atkvæðum Gísla Sigurðssonar og Stefáns Vagns Stefánssonar. Ólafur Bjarni Haraldsson situr hjá við atkvæðagreiðsluna.

2.Kirkjutorg (143549) Sauðárkrókskirkja - Lóðarmál

2108244

Lagt fram bréf dagsett 11. apríl 2022 frá sóknarnefnd Sauðárkrókskirkju varðandi bætta aðkomu og aðgengi hreyfihamlaðra að Safnaðarheimilinu. Óskað er eftir svörum fyrir 12. maí 2022 hvernig og hvenær sé að vænta lausnar á málinu.
Byggðarráð óskar eftir því að skipulags- og byggingarnefnd feli skipulagsfulltrúa að undirbúa deiliskipulagningu á reit sem afmarkast af Aðalgötu í austri, Hlíðarstíg í suðri, Skógargötu í vestri og Bjarkarstíg í norðri, að hafðri hliðsjón af samningum sem gerðir hafa verið á vegum sveitarfélagsins við einstaka lóðarhafa. Feli verkið m.a. í sér að yfirfarin verði lóðarmörk. Um reitinn gildir núna deiliskipulag sem samþykkt var af bæjarstjórn Sauðárkróks 30.09. 1986 og staðfest af félagsmálaráðherra 06.03. 1987. Reiturinn tilheyrir verndarsvæði í byggð.

3.Stapi lífeyrissjóður ársfundur 2022

2205068

Lagt fram fundarboð ársfundar Stapa lífeyrissjóðs árið 2022, þann 1. júní n.k. í Menningarhúsinu Hofi.
Byggðarráð samþykkir að sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs fari með atkvæðisrétt sveitarfélagsins á fundinum.

4.Umsókn um leyfi fyrir rallýkeppni 22.-23 júlí

2205019

Lagt fram bréf dagsett 2. maí 2022 frá Bílaklúbbi Skagafjarðar þar sem sótt er um leyfi til að halda rallaksturskeppni í Skagafirði 22.-23. júlí 2022. Keppnin er þriðja keppnin í Íslandsmeistaramóti Akstursíþróttasambands Íslands (AKÍS) og fer fram í samræmi við reglur AKÍS og reglugerð nr. 507/2007 um akstursíþróttir og aksturskeppnir, með áorðnum breytingum.
Ráðgert er að keppnin fari fram með hefðbundnu sniði og eknar verði sérleiðir um þá vegi sem verið hefur undanfarin ár. Þannig verði farnar sérleiðir um Mælifellsdal og Vesturdal, auk þess sem ekið verði um Nafir (innanbæjar á Sauðárkróki).
Byggðarráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti svo fremi að öll önnur tilskilin leyfi fáist frá hlutaðeigandi aðilum og öllum reglum verði framfylgt.

5.Fyrirspurn vegna Kleifatún 2

2205007

Lagt fram bréf dagsett 4. apríl 2022 frá Hafsteini Loga Sigurðarsyni og Júlíu Ósk Gestsdóttur, íbúum í Kleifatúni 2, Sauðárkróki. Með tilvísun í fundarsamþykkt umhverfis- og samgöngunefndar frá 20. október 2021, óska bréfritarar eftir því að sveitarfélagið taki þátt í kostnaði þeirra við að reisa ákeyrsluvarnarvegg á mörkum lóðarinnar Kleifatún 2, við Túngötu.
Byggðarráð samþykkir að vísa erindinu til umhverfis- og samgöngunefndar vegna úttektar á umferðaröryggi við Túngötu og þeirra aðgerða sem ráðast á í að úttekt lokinni. Afstaða byggðarráðs til erindisins að öðru leyti verður tekin þegar úttekt og öryggisráðstafanir munu liggja fyrir.

6.Umsagnarbeiðni; Frumvarp til laga um sorgarleyfi

2205017

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 2. maí 2022 frá nefndasviði Alþingis. Velferðarnefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um sorgarleyfi, 593. mál. Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 16. maí 2022.
Byggðarráð fagnar framkomnu frumvarpi.

7.Bókun stjórnar SÍS um innleiðingu barnaverndarlaga

2203286

Lagt fram til kynningar bréf dagsett 30. mars 2022 frá Sambandi íslenskra sveitarafélaga þar sem kynnt er bókun stjórnar sambandsins frá 25. mars 2022 vegna innleiðingu barnaverndarlaga. Einnig lagt fram afrit af bréfi sambandsins til mennta- og barnamálaráðherra þann 25. febrúar 2022, vegna sama máls.

8.Bréf reikningsskila- og upplýsinganefndar v. viðauka fyrir 1. júní 2022. v. reglugerðarbreytingar

2205053

Lagt fram til kynningar bréf dagsett 5. maí 2022 frá reikningsskila- og upplýsinganefnd innviðaráðuneytis. Árétta er að sveitarfélög skulu skila viðauka við fjárhagsáætlun áranna 2022-2025 þar sem búið er að taka inn í áætlunina byggðasamlög, sameignafélög, sameignarfyrirtæki og önnur félagaform sem eru með ótakmarkaðri ábyrgð sveitarfélags, fyrir 1. júní 2022.

Fundi slitið - kl. 12:58.