Byggðarráð Skagafjarðar

948. fundur 13. janúar 2021 kl. 11:30 - 12:12 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Gísli Sigurðsson formaður
  • Stefán Vagn Stefánsson varaform.
  • Ólafur Bjarni Haraldsson aðalm.
  • Álfhildur Leifsdóttir varam. áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjálmálasviðs
Dagskrá

1.Fjárhagsáætlun 2021 - Viðauki 1

2101098

Lagður fram viðauki 1 við fjárhagsáætlun ársins 2021 vegna skuldbreytinga langtímalána að fjárhæð 418 mkr.
Byggðarráð samþykkir framlagðan viðauka og vísar honum til afgreiðslu sveitarstjórnar.

2.Skuldbreyting langtímalána

2010221

Byggðarráð samþykkir hér með að vísa því til sveitarstjórnar að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga ohf. að höfuðstól allt að 418.000.000 kr., með lokagjalddaga þann 5. apríl 2034.
Til tryggingar láninu (höfuðstól, verðbóta auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standi tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Er lánið tekið til endurfjármagna eldri lán sem upphaflega voru tekin til að fjármagna framkvæmdir sveitarfélagsins sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

3.Umsagnarbeiðni; frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð

2012134

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 11. desember 2020 frá nefndasviði Alþingis þar sem umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð, 369. mál. Umsagnarfrestur er til 1. febrúar 2021.
Byggðarráð samþykkir að fresta afgreiðslu málsins til næsta fundar.

4.Samráð; Grænbók um byggðamál

2012263

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 29. desember 2020 þar sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 274/2020, "Grænbók um byggðamál". Umsagnarfrestur er til og með 25.01. 2021.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar fagnar framkominni grænbók um byggðamál. Um er að ræða afar brýnan málaflokk sem snertir ákaflega marga þætti innviða landsins alls.
Meginmarkmið grænbókarinnar er að byggðir og sveitarfélög um land allt verði sjálfbær og að þjónusta samgöngu- og fjarskiptakerfa mæti þörfum samfélagsins. Áherslur og leiðir eru einnig brýnar, þ.e. að jafna aðgengi að þjónustu, jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um land allt.
Byggðarráð leggur áherslu á hversu gríðarlega mikilvægt það er að styrkja mikilvæga innviði landsins, s.s. aðgang að góðri og öruggri heilbrigðisþjónustu og hjúkrunarrýmum, tækifæri til fjölbreyttrar menntunar, tengingu heimila og atvinnulífs við öruggt raforkukerfi sem mismunar ekki íbúum landsins hvað gjaldskrár varðar, eflingu og stækkun dreifisvæðis hitaveitna, og stuðning við nýsköpun og sprotastarfsemi, svo fátt eitt sé nefnt. Allt þetta stuðlar að styrkingu byggða og atvinnulífs um land allt.
Í dag búa um 64% Íslendinga á höfuðborgarsvæðinu en sambærilegt hlutfall í nágrannalöndum okkar er 20-36%. Eðlilegt er því að stjórnvöld beiti sér fyrir jafnari búsetuskilyrðum um land allt og að fólk hafi val um að búa á þeim stað sem það kýs, án þess að það bitni á aðgengi að grunninnviðum sem hvert samfélag á að búa við.
Byggðarráð hvetur stjórnvöld til dáða við að framfylgja og innleiða markmið og áherslur grænbókarinnar sem allra fyrst.

5.Samráð; Barneignarþjónusta - stöðuskýrsla og tillögur starfshóps ráðherra

2101082

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 8. janúar 2021 þar sem heilbrigðisráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 5/2021, "Barneignarþjónusta - stöðuskýrsla og tillögur starfshóps ráðherra". Umsagnarfrestur er til og með 08.02. 2021.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar fagnar framkominni skýrslu um barneignarþjónustu.
Eins og réttilega er bent á er engin stefna til um barneignarþjónustu hérlendis, hvorki varðandi fjölda og staðsetningu skilgreindra fæðingarstaða á landsvísu, né yfirlýst stefna um þá þjónustu og aðbúnað sem konum ætti að standa til boða.
Á Norðurlandi vestra er enginn skilgreindur fæðingarstaður og þurfa barnshafandi konur í þeim landshluta því að leita til Akureyrar, Akraness eða annað til að fæða börn sín. Ekki þarf að fjölyrða um oft á tíðum erfiðar aðstæður sem konur geta lent í af þeim sökum en barnshafandi konur í Skagafirði þurfa t.a.m. í öllum tilfellum að fara um erfiða fjallvegi til fæðingarstaða, þ.e. um Öxnadalsheiði, Vatnsskarð, Þverárfjall eða Siglufjarðarveg. Síðast liðinn vetur lokuðust þessir vegir mjög reglulega, Öxnadalsheiði í 34 skipti, Vatnsskarð í 22 skipti, Þverárfjall í 43 skipti og Siglufjarðarvegur í 54 skipti.
Þá má minna á að aðgangur íbúa Norðurlands vestra að sjúkrahúsþjónustu sem er með sólarhringsaðgengi að skurðstofu er hvergi lakara en á Norðurlandi vestra. Nánast enginn íbúi á möguleika á að komast í slíka þjónustu á innan við klukkustund en í þeim landshluta sem næst lakast stendur á rúmlega helmingur íbúa þess kost að komast á þannig sjúkrahús innan klukkustundar. Úr þessu má bæta með tvennu móti, að byggja upp og manna sjúkrahús sem getur bætt aðgengi íbúanna að þessari þjónustu. Hins vegar má bæta samgöngur.
Ef miðað er við framangreinda skýrslu um barneignarþjónustu virðist ætlunin ekki vera sú að byggja upp fæðingarþjónustu á Norðurlandi vestra heldur mögulega koma upp starfsstöð héraðsljósmóður á Sauðárkróki sem „bæri ábyrgð á að veita grunnþjónustu í héraði, s.s. meðgönguvernd, sængurleguþjónustu og ungbarnavernd auk leghálsskimunar og ávísun hormónatengdra getnaðarvarna auk þess að hafa skilgreinda og launaða bakvaktaskyldu til að sinna bráðatilfellum í héraði. Héraðsljósmóðir bæri ábyrgð á að samþætta grunnþjónustu við sérhæfða þjónustu sem væri ýmist hægt að veita á staðnum, með fjarheilbrigðisþjónustu eða með flutningi skjólstæðings á hærra þjónustustig.“
Með öðrum orðum virðist ætlunin sú að áfram verði enginn skilgreindur fæðingarstaður á Norðurlandi vestra heldur verði komið á fót starfi héraðsljósmóður sem undirbyggi barnshafandi konur undir flutning á hærra þjónustustig.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar fer fram á að íbúar Norðurlands vestra búi við sambærilega þjónustu af hálfu ríkisins og íbúar annarra landshluta.

6.Umsögn SÍS um drög að landsskipulagsstefnu

2101016

Lagður fram til kynningar tölvupóstur dagsettur 30. desember 2020 frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga varðandi drög að umsögn um drög að viðbótum við landsskipulagsstefnu.

7.Innkaupastefnu fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð

2011051

Lögð fram til kynningar drög að Innkaupastefnu Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Fundi slitið - kl. 12:12.