Byggðarráð Skagafjarðar

906. fundur 18. mars 2020 kl. 11:30 - 13:00 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Stefán Vagn Stefánsson formaður
  • Gísli Sigurðsson varaform.
  • Bjarni Jónsson aðalm.
  • Ólafur Bjarni Haraldsson áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjálmálasviðs
Dagskrá

1.Skipan fulltrúa í aðgerðastjórn á Norðurlandi vestra

2003167

Byggðarráð samþykkir að tilnefna Sigfús Inga Sigfússon sveitarstjóra sem aðalmann og Gísla Sigurðsson byggðarráðsmann til vara í aðgerðarstjórn Norðurlands vestra.

2.Breytingar á innheimtu gjalda vegna Covid-19

2003168

Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra og sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að undirbúa tillögur að útfærslu afslátta af gjöldum vegna skerðinga á vistun barna í leik- og grunnskólum Skagafjarðar í samræmi tillögur sem verið er að móta í samráði sveitarfélaga landsins.

3.Framtíðarstarfsemi í Sólgarðaskóla

2003163

Byggðarráð er sammála um að fyrsti kostur sé að fara eftir tillögum starfshóps um framtíð Sólgarðaskóla um að leita eftir samstarfi við stjórnvöld um breytingu á húsnæði Sólgarðaskóla í hagkvæmt leiguhúsnæði líkt og gert hefur verið víðar á landsbyggðinni. Jafnframt að hluta Sólgarðaskóla, sem áður hýsti leikskóla, verði ekki ráðstafað til langtímanota að sinni, þannig að mögulega verði unnt að opna leikskóla þar aftur ef börnum á leikskólaaldri heldur áfram að fjölga og grundvöllur verður fyrir slíkri starfsemi að nýju.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að auglýsa skólahúsnæðið til skammtímaleigu. Jafnframt felur byggðarráð sveitarstjóra að kanna með leigu á sundlaugarmannvirkjum til langs tíma með þeim skilyrðum að sundlaugin verði opin almenningi.

4.Íslandsmót í snjócrossi

2003128

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 11. mars 2020 frá Guðmundi Rúnari Guðmundssyni, þar sem hann sækir um leyfi fyrir hönd Vélhjólaklúbbs Skagafjarðar um að halda lokaumferð í Íslandsmóti í snjócrossi þann 4. apríl 2020 á AVIS skíðasvæðinu í Tindastóli. Einnig er óskað leyfis til þess að halda snjóspyrnusýningu um kvöldið á svæði austan við Minjahúsið. Með erindinu fylgir staðfesting á leyfi stjórnar Skíðadeildar Tindastóls fyrir mótshaldi á skíðasvæðinu.
Byggðarráð samþykkir að veita leyfi fyrir keppninni, svo fremi að önnur skilyrði fyrir mótinu séu uppfyllt.

5.Birgðastöð Olíudreifingar við Eyrarveg 143293 Umsókn um að fjarlægja mannvirki.

2003095

Lagt fram bréf dagsett 28. febrúar 2020 frá Olíudreifingu ehf. þar sem óskað er leyfis til þess að fjarlægja fasteignir í birgðastöð félagsins við Eyrarveg á Sauðárkróki, olíugeyma, dæluhús og geymsluhúsnæði, fasteignarnúmer 2131421, matshlutar 01 til 07, ásamt eldsneytislögnum stöðvarinnar sem eru ofanjarðar. Allt lagnakerfið frá bryggju inn í stöð verður tæmt af eldsneyti og lagnirnar hreinsaðar.
Byggðarráð samþykkir að vísa málinu til meðferðar skipulagsfulltrúa og felur sveitarstjóra að óska eftir fundi með fulltrúum fyrirtækisins.

6.Örútboð - RS raforka sveitarfélög

1911204

Sveitarfélaginu Skagafirði hefur borist tillaga að vali á bjóðanda í örútboði nr. 21075 RS raforka sveitafélög.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagajarðar samþykkir að fara að tillögu Ríkiskaupa og mun tilkynning um val tilboðs verða send bjóðendum í útboðskerfinu. Tilkynnt verður um töku tilboðs þegar biðtíma er lokið, ef engin kæra berst til kærunefndar útboðsmála. Við töku tilboða er komið á samningssamband milli kaupanda og seljanda.

7.Umhverfisstefna Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2040

1906041

Lögð var fyrir 166. fund umhverfis- og samgöngunefndar, þann 17. febrúar 2020, tillaga frá Umhverfisráðgjöf Íslands um verklag og kostnað við gerð umhverfisáætlunar fyrir sveitarfélagið fyrir tímabilið 2020 til 2040. Umhverfis- og samgöngunefnd samþykkti tillöguna fyrir sitt leyti og vísaði til byggðaráðs.
Byggðarráð samþykkir tillöguna.

8.Samráð; Uppbygging innviða

2003072

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 4. mars 2020 þar sem forsætisráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 55/2020, „Uppbygging innviða“. Umsagnarfrestur er til og með 31.03.2020.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar fagnar afar góðri vinnu átakshóps um úrbætur á innviðum og þakkar stjórnvöldum fyrir skjót og góð viðbrögð í kjölfar fárviðrisins sem gekk yfir Ísland í desember sl.

Þær tillögur til aðgerða sem koma fram á innvidir2020.is eru mjög góðar og mikilvægt að hraða þeim sem kostur er.
Byggðarráð vill þó benda á mikilvægi þess að hraðað verði enn frekar aðgerðum sem felast í jarðstrengjavæðingu dreifikerfis raforku og þrífösun því samfara. Mikilvægt er að þeir hlutar dreifikerfis raforku í Skagafirði sem verst fóru í veðrinu verði endurnýjaðir strax á árunum 2020-2021. Er þar m.a. um að ræða Skagalínu, Reykjastrandarlínu og Glaumbæjarlínu. Þá þarf að tryggja að flutningskerfi raforku geti staðið undir hlutverki sínu en mikilvægir þættir byggðalínunnar duttu m.a. út í desember.
Þá vill byggðarráð ítreka að lagfæringum á sjóvarnargörðum við Strandveg og Skarðseyri verði hraðað sem nokkur kostur er, að framkvæmdir við nýjan hafnargarð á Sauðárkróki hefjist hið fyrsta og að fjárveiting verði veitt strax á árinu 2020 til kaupa á nýjum hafnsögubáti fyrir Skagafjarðarhafnir. Allir þessir þættir lúta að auknu öryggi og viðbrögðum til að koma í veg fyrir stórtjón og stöðvun atvinnulífs á og við hafnarsvæðið á Sauðárkróki.
Að lokum er áréttað að öll atriði sem lúta að aukinni getu viðbragsaðila, s.s. heilbrigðisstofnana, sjúkraflutninga og sjúkraflugs, öryggi fjarskiptakerfis o.s.frv. eru mjög brýn og verða að njóta alls forgangs. Byggðarráð fagnar þeirri ákvörðun um að setja Alexandersflugvöll aftur inn í grunnnet innanlandsflugs og brýnir fyrir stjórnvöldum að hann fari sem slíkur inn í samgönguáætlun.

9.Samráð; Frumvarp til breytinga á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða

2003093

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 6. mars 2020 þar sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 65/2020, "Frumvarp til breytinga á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða". Umsagnarfrestur er til og með 20.03.2020.

10.Samráð; Reglur um erlend heiti háskóla

2003094

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 6. mars 2020 þar sem mennta- og menningarmálaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 66/2020, "Reglur um erlend heiti háskóla". Umsagnarfrestur er til og með 20.03.2020.

11.Viðbragðsáætlun Covid-19

2003080

Farið yfir viðbragðsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar, 2. útgáfu.

12.Snjómokstur í Fljótum

2003165

Ingvar Gýgjar Sigurðarson verkstjóri kom á fundinn til viðræðu um snjóalög og snjómokstur í Fljótum.

Fundi slitið - kl. 13:00.