Byggðarráð Skagafjarðar

878. fundur 04. september 2019 kl. 12:00 - 14:45 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Stefán Vagn Stefánsson formaður
  • Gísli Sigurðsson varaform.
  • Ólafur Bjarni Haraldsson áheyrnarftr.
  • Regína Valdimarsdóttir varam.
  • Álfhildur Leifsdóttir varam.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Dagskrá

1.Málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra frá 1. janúar 2020

1906059

Til fundar byggðarráðs komu Herdís Á Sæmundardóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs og Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir félagsmálastjóri og kynntu minnisblað um samning um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra.
Byggðarráð frestar afgreiðslu málsins.

2.Aðalgata 21 - framkvæmd endurbóta

1802266

Til fundar byggðarráðs kom Indriði Þór Einarsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs sveitarfélagsins og fór yfir stöðu framkvæmda við Aðalgötu 21a og 21b á Sauðárkróki.
Verkið er á lokastigum en á haustdögum verður unnið að lokafrágangi utanhúss og í kjallara.
Heildarkostnaður verksins er nú um 318 m.kr. og áætlaður kostnaður í árslok 2019 ríflega 324 m.kr.

3.Viðauki 5 við fjárhagsáætlun 2019

1909020

Lögð fram drög að viðauka númer 5 við fjárhagsáætlun 2019. Viðaukinn gerir ráð fyrir að fjárfesting eignasjóðs hækki um 27,360 m.kr. vegna framkvæmda við Aðalgötu 21. Fjárfestingunni verði mætt með aukinni lántöku að fjárhæð 27 m.kr. og lækkun handbærs fjár um 360 þúsund krónur.
Gísli Sigurðsson vék af fundi undir þessum lið og Regína Valdimarsdóttir varamaður hans tók sæti í hans stað.
Byggðarráð samþykkir með 2 atkvæðum að vísa viðauka 5 við fjárhagsáætlun 2019 til afgreiðslu sveitarstjórnar.
Álfhildur Leifsdóttir (VG og óháðum )óskar bókað:
Framboð VÓ styður ekki viðauka vegna framkvæmda við Aðalgötu 21a-21b.
Ólafur Bjarni Haraldsson (Byggðalistanum) óskar bókað:
Framkvæmdirnar við endurbætur húsanna hafa farið allt of langt fram úr þeim áætlunum sem farið var af stað með í upphafi. Menn hljóta að spyrja sig að því hvort réttar ákvarðanir hafi verið teknar í upphafi og hvað lá þeim ákvörðunum til grundvallar.
Fulltrúar meirihlutans í byggðarráði óska bókað:
Nú hyllir undir verklok á endurbótum húsanna. Verkið hefur farið fram úr upphaflegri kostnaðaráætlun enda endurbæturnar m.a. náð til stærri hluta hússins en ráðgert hafði verið í upphafi, s.s. uppgerð á 2. hæð Gránu og viðameiri framkvæmdir í kjallara en að hafði verið stefnt. Þá er ljóst að kostnaður við uppgerð Gránu í heild sinni hefur verið vanáætlaður og fleiri tímar farið í verkið en áætlað var í flestum verkþáttum enda reyndist nauðsynlegt að ráðast í meiri framkvæmdir vegna ástands hússins en gert var ráð fyrir í upphafi.
Eftir standa glæsilegar byggingar í eigu sveitarfélagsins, sem eru því og héraðinu til sóma í stað vansa og aðgengilegar öllum. Fellur verkefnið afar vel að markmiðum um verndarsvæði í byggð á Sauðárkróki sem ætlað er að viðhalda og styrkja byggðina á svæðinu þannig að verndun, uppbygging og framþróun haldist í hendur.

4.Fyrirspurn vegna Aðalgötu 21

1907218

Tekin fyrir fyrirspurn frá Álfhildi Leifsdóttur sveitarstjórnarfulltrúa og svör sem veitt hafa verið við henni. Svörin eru birt á heimasíðu Sveitarfélagsins Skagafjarðar undir stjórnsýsla - ýmsar skýrslur.
Álfhildur Leifsdóttir (VG og óháðum) óskar bókað:
Það er mikilvægt að upplýsingar um aðkomu sveitarfélagsins að svona stórum og fjárfrekum verkefnum liggi fyrir á hverjum tíma.
Eftir á þó að gera upp verkið í heild sinni þegar því er lokið en ljóst er að verkið hefur verið vanáætlað frá upphafi og verið sveitarfélaginu mjög kostnaðarsamt, með þeim afleiðingum að önnur nauðsynleg verk sem hafa beðið framkvæmda á sama tíma.
Ólafur Bjarni Haraldsson (Byggðalistanum) óskar bókað:
Framkvæmdirnar við endurbætur húsanna hafa farið allt of langt fram úr þeim áætlunum sem farið var af stað með í upphafi. Menn hljóta að spyrja sig að því hvort réttar ákvarðanir hafi verið teknar í upphafi og hvað lá þeim ákvörðunum til grundvallar.
Fulltrúar meirihlutans óska bókað:
Byggingar við Aðalgötu 21a og 21b á Sauðárkróki eru með eldri húsum í Sveitarfélaginu Skagafirði. Annars vegar er um að ræða Gránu sem byggð var árið 1887 og hins vegar gömlu mjólkurstöðina sem byggð var árið 1935. Byggingarnar eiga sér merka sögu í atvinnulífi héraðsins.
Fyrir lá að meðan byggingarnar voru í eigu Kaupfélags Skagfirðinga hafði verið veitt heimild til niðurrifs á hluta þeirra. M.a. af þeirri ástæðu og vegna þess að viðhaldi þeirra hafði ekki verið sinnt þannig að þær voru orðnar lýti á ásýnd gamla bæjarins á Sauðárkróki, var ákveðið að fara í makaskipti á fasteignum við Kaupfélag Skagfirðinga, þannig að Sveitarfélagið Skagafjörður eignaðist umrædd hús. Fullkomin samstaða var um þetta í tíð fyrri sveitarstjórnar á þeim forsendum sem þá voru til staðar og einnig um það að ráðast í endurbætur á húsunum.
Nú hyllir undir verklok á endurbótum húsanna. Verkið hefur farið fram úr upphaflegri kostnaðaráætlun enda endurbæturnar m.a. náð til stærri hluta hússins en ráðgert hafði verið í upphafi. Eftir standa glæsilegar byggingar í eigu sveitarfélagsins, sem eru því og héraðinu til sóma í stað vansa og aðgengilegar öllum.
Fyrir liggur að minnihluti sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar er andvígur aðkomu sveitarfélagsins að þeirri starfsemi sem er í húsunum við Aðalgötu 21a og 21b. Um það þarf ekki að deila. Meirihluti sveitarstjórnar telur hins vegar að það hafi verið farsælt skref að ráðast í endurbætur og lagfæringu húsanna og að stuðla að því að þar byggðist upp lifandi starfsemi sem vekti áhuga og eftirtekt og laði að gesti sem ferðist víða um Skagafjörð til að skoða allt það fjölmarga sem héraðið hefur upp á að bjóða. Ekki er það síður jákvætt að aðsókn að Sýndarveruleikasýningunni 1238 hefur verið í samræmi við væntingar rekstraraðila þá ríflega tvo mánuði sem hún hefur verið í gangi og að 12 manns eru nú þegar á launaskrá hjá þeim, svo sem lesa mátti nýlega um í héraðsfréttablaðinu Feyki.

5.Stuðningur við ljósleiðaravæðingu í Sveitarfélaginu Skagafirði

1909018

Lögð fram drög að samningi á milli Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Kaupfélags Skagfirðinga um stuðning KS við uppbyggingu ljósleiðarakerfis í dreifbýli í sveitarfélaginu. Samkvæmt drögunum mun KS styðja við verkefnið með 20 m.kr. framlagi til viðbótar við framlag Sveitarfélagsins Skagafjarðar og annarra aðila. Áætlað er að ljósleiðaravæðingu í dreifbýli í Sveitarfélaginu Skagafirði verði lokið árið 2021.
Byggðarráð samþykkir framlögð samningsdrög og þakkar Kaupfélagi Skagfirðinga fyrir þeirra framlag til hröðunar ljósleiðaravæðingar og eflingu búsetuskilyrða í sveitarfélaginu.

6.Jafnréttisáætlun 2018-2022

1809026

Lögð fram drög að jafnréttisstefnu fyrir árin 2018-2022 ásamt aðgerðaráætlun.
Byggðarráð frestar afgreiðslu málsins.

7.Umsókn um lækkun fasteignaskatts

1908150

Trúnaðarmál.

8.Samráðsgátt; um breytingu á lögum um matvæli, lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, lögum um sjávarafurðir og lögum um slátrun og sláturafurðir

1908154

Lagt fram til kynningar mál í samráðsgátt stjórnvalda nr. 2010/2019 um breytingu á lögum um matvæli, lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, lögum um sjávarafurðir og lögum um slátrun og sláturafurðir.

Fundi slitið - kl. 14:45.