Byggðarráð Skagafjarðar

870. fundur 12. júní 2019 kl. 11:30 - 13:12 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Stefán Vagn Stefánsson formaður
  • Gísli Sigurðsson varaform.
  • Bjarni Jónsson aðalm.
  • Ólafur Bjarni Haraldsson áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Sólgarðaskóli, framtíðaráætlanir

1905129

Lagt fram ódagsett bréf, skráð 16. maí 2019, frá Ólöfu Ýrr Atladóttur og Arnari Þór Árnasyni varðandi Sólgarðaskóla í Fljótum, framtíðaráætlanir, bílaplan og lóð.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að hafa samband við bréfritara um endurbætur á lóð og plani. Hvað varðar afnot af Sólgarðaskóla getur byggðarráð ekki orðið við erindinu að svo stöddu á meðan beðið er eftir niðurstöðu starfshóps um framtíðarstarfsemi í Sólgarðaskóla.

2.Umhverfisstefna Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2040

1906041

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkir að fela sveitarstjóra ásamt umhverfis- og samgöngunefnd gerð umhverfisáætlunar fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð fyrir árin 2020 til 2040.
Umhverfisáætlun sveitarfélagsins skal ná yfir alla þá þætti er snúa að umhverfismálum í sveitarfélaginu og skal eitt af megin markmiðum áætlunarinnar vera að kolefnisjafna sveitarfélagið fyrir árið 2040 sem og að uppfylla þau umhverfismarkmið sem fram koma í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Umhverfisstefnan og aðalskipulag Sveitarfélagsins Skagafjarðar skulu vera í innbyrðis samræmi.
Umhverfisstefna Sveitarfélagsins Skagafjarðar og framkvæmd hennar skal vera liður í daglegu starfi sveitarfélagsins, starfsmanna þess sem og íbúa. Umhverfisstefnuna á að kynna fyrir starfsfólki og íbúum Sveitarfélagsins Skagafjarðar og birta opinberlega á vef sveitarfélagsins. Við framkvæmd stefnunnar skal leitast við að hafa jafnræði allra íbúa og jafnrétti að leiðarljósi og tryggja aðgengi allra.

Greinargerð:
Í umhverfisstefnu fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð fyrir árið 2020-2040 skal áhersla vera lögð á eftirfarandi þætti.
Sveitarfélagið Skagafjörður hefur verið leiðandi í úrgangsmálum og sorpflokkun á Íslandi og skal stefnt á að gera enn betur á því sviði, sér í lagi í dreifbýli. Skoða þarf m.a. möguleika á framleiðslu lífdísels úr þeim úrgangi sem til fellur innan sveitarfélagsins.
Íbúum Skagafjarðar verði tryggður aðgangur að hreinu vatni, lofti sem og náttúru og útivistarsvæðum. Leitast skal við að takmarka alla sóun verðmæta s.s. matar til að takmarka myndun úrgangs og stuðla að endurnýtingu og endurvinnslu.
Sveitarfélagið Skagafjörður þarf að vera tilbúinn undir orkuskiptin sem nú þegar eru hafin og vera leiðandi sveitarfélag þegar kemur að notkun endurnýtanlegrar orkugjafa s.s. rafmagns í stað jarðefnaeldsneytis. Fjölga þarf hraðhleðslustöðvum innan sveitarfélagsins sem og tryggja að skip sem liggja við bryggju hafi aðgang að rafmagni. Til að framangreint nái fram að ganga þarf dreifing raforku um Skagafjörð að vera tryggð.
Sveitarfélagið Skagafjörður mun stuðla að og vera í farabroddi í vistvænum innkaupum á hverslags vörum og þjónustu fyrir sveitarfélagið. Leitast skal við að í öllum ákvarðanatökum, framkvæmdum, rekstri, innkaupum og annarri starfssemi sveitarfélagsins séu neikvæð áhrif á umhverfi og náttúru í lágmarki.
Binding CO2 úr andrúmsloftinu með skógrækt og endurheimt votlendis skal aukin verulega á umræddu tímabili í samráði við Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins.
Mikilvægi þekkingar og vitundar um umhverfismál verður seint metið að fullu. Mikilvægt er að starfsmönnum sveitarfélagsins og íbúum sé tryggð fræðsla um umhverfismál og umhverfisvæna lífshætti.
Með umræddum aðgerðum verður Sveitarfélagið Skagafjörður í fararbroddi er kemur að umhverfismálum á Íslandi og mikilvægt að ná breiðri sátt íbúa og fyrirtækja í Skagafirði um verkefnið svo vel megi takast.

3.Styrkbeiðni Foreldrafélag Birkilundar

1906101

Lagt fram erindi dagsett 10. júní 2019 frá stjórn foreldrafélags leikskólans Birkilundar í Varmahlíð. Óskað er eftir styrk frá sveitarfélaginu til leikfangakaupa í tilefni 20 ára afmælis leikskólans.
Byggðarráð samþykkir að leggja foreldrafélaginu til 100 þús.kr. af fjárhagslið 21890.

4.Viðauki 3 við fjárhagsáætlun 2019

1906105

Lagður fram viðauki nr. 3 við fjárhagsáætlun 2019. Viðaukinn er annars vegar gerður vegna stofnsetningar frístundaúrræðis við Varmahlíðarskóla. Tekjur eru 2.335 þús.kr. og rekstrargjöld 6.800 þús.kr. í A-hluta. Útgjöldunum mætt með lækkun handbærs fjár. Hins vegar er viðauki í A-hluta vegna Bugaskála að fjárhæð 2.000 þús.kr. Útgjöldunum mætt með lækkun útgjalda vegna landbúnaðarmála um 1.000 þús.kr. og lækkun handbærs fjár um 1.000 þús.kr.
Byggðarráð samþykkir framlagðan viðauka nr. 3 við fjárhagsáætlun 2019.

5.Beiðni um lækkun fasteignaskatts

1906068

Sjá trúnaðarbók.

6.Suðurbraut 10, Berg Bistro - Umsagnarbeiðni vegna rekstrarleyfis

1906046

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 4. júní 2019, úr máli 1906030 hjá embætti sýslumannsins á Norðurlandi vestra. Óskað er umsagnar um umsókn Júlíu Þórunnar Jónsdóttur, Hátúni 7, 565 Hofsós, f.h. Lónkot-sveitasetur ehf, kt.461015-0260, um leyfi til að reka veitingastað í flokki III að Suðurbraut 10, 565 Hofsós. Fasteignanúmer 214-3677.
Byggðarráð gerir ekki athugasemdir við umsóknina.

7.Aðalgata 21a - Umsagnarbeiðni vegna rekstrarleyfis

1905058

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 8. maí 2019, úr máli 1905130 hjá embætti sýslumannsins á Norðurlandi vestra. Óskað er umsagnar um umsókn Áskels Heiðars Ásgeirssonar, f.h. Sýndarveruleika ehf, kt.470218-0370, um leyfi til að reka veitingastað í flokki III að Aðalgötu 21, 550 Sauðárkróki. Afgreiðslutími áfengis (ef við á) til kl:01:00 alla daga.
Byggðarráð gerir ekki athugasemdir við umsóknina.

8.Hofstaðir lóð I (219174) og lóð II (221579) - Umsagnarbeiðni vegna rekstrarleyfis

1906048

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 4. júní 2019, úr máli 1906023 hjá embætti sýslumannsins á Norðurlandi vestra. Óskað er umsagnar um umsókn Þórólfs Sigjónssonar, f.h. Selsburstir ehf, kt.411298-2219, um leyfi til að reka gististað í flokki IV að Hofsstöðum, 551 Sauðárkróki.
Byggðarráð gerir ekki athugasemdir við umsóknina.

9.Öflun aukins neysluvatns fyrir Sauðárkrók

1904185

Indriði Þór Einarsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs kom til viðræðu um málefni vatnsveitu undir þessum dagskrárlið.

10.Framkvæmdayfirlit 2019

1906106

Indriði Þór Einarsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs kom til viðræðu um stöðu framkvæmda ársins undir þessum dagskrárlið.
Bjarni Jónsson óskar bókað:
Miklu máli skiptir að framkvæmdum við nýjan leikskóla á Hofsósi í tenglum við grunnskólann verði hraðað, en lengi hefur verið beðið eftir bættri aðstöðu á staðnum. Það sama má segja um lok framkvæmda við Sundlaug Sauðárkróks, undirbúning viðbyggingar við neðra stig leikskólans Ársala Sauðárkróki, og umbætur skólamannvirkja í Varmahlíð, ásamt fleiri brýnum verkefnum víða um sveitarfélagið. Áréttað er mikilvægi þess að sveitarfélagið forgangsraði með þarfir íbúa víðsvegar um sveitarfélagið að leiðarljósi.

11.Aukalandsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga 6. sept 2019

1906107

Lagt fram til kynningar bréf dagsett 11. júní 2019 frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga varðandi boðun XXXIV. landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga. Á 871. fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldinn var miðvikudaginn 29. maí sl., var samþykkt að boða til auka landsþings þann 6. september 2019 í Reykjavík, til að ræða tillögu að stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga.

Fundi slitið - kl. 13:12.