Byggðarráð Skagafjarðar

795. fundur 12. október 2017 kl. 09:00 - 09:59 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Sigríður Svavarsdóttir varaform.
  • Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir aðalm.
  • Viggó Jónsson varam.
  • Hildur Þóra Magnúsdóttir varam. áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri
Dagskrá

1.Almennar íbúðir - opið fyrir umsóknir um stofnframlög

1710010

Lagður fram tölvupóstur frá Íbúðalánasjóð dagsettur 29.september s.l. þar sem sjóðurinn auglýsir eftir umsóknum til byggingar eða kaupa á almennum íbúðum skv. lögum nr. 52/2016 og reglugerð nr. 555/2016 í síðari úthlutun ársins 2017.

Markmið laga um almennar íbúðir er að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga, sem eru undir tekju- og eignamörkum við upphaf leigu, með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði og stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda.

Stofnframlög eru veitt til byggingar og kaupa á almennum íbúðum til að stuðla að því að í boði verði leiguíbúðir á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þurfa á því að halda, þ.m.t. fyrir námsmenn, ungt fólk, aldraða og fatlaða.

Nauðsynlegt er að sækja jafnframt um stofnframlag hjá því sveitarfélagi þar sem viðkomandi íbúð er staðsett og er samþykki sveitarfélagsins eitt af skilyrðum fyrir veitingu stofnframlags ríkisins.

Umsóknum skal skila á rafrænu formi á heimasíðu Íbúðalánasjóðs, www.ils.is. Umsóknarfrestur er til og með 31. október 2017. Umsókn sem berst eftir að umsóknarfrestur rennur út verður ekki tekin til umfjöllunar.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Íbúðalánasjóðs, www.ils.is.

2.Viðbragðsáætlun vegna eineltis, áreitni og ofbeldis á vinnustað

1607136

Lagt fram frá félags- og tómstundanefnd til afgreiðslu í byggðarráði stefna og viðbragðsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar gegn einelti, ofbeldi, kynferðislegri og kynbundinni áreitni sem er unnin í samræmi við reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Félags- og tómstundanefnd hefur samþykkt stefnuna og viðbragðsáætlunina fyrir sitt leyti.
Byggðarráð samþykkir stefnuna og viðbragðsáætlunina og vísar henni til afgreiðslu sveitarstjórnar.

3.Leiðbeiningar um viðbrögð við ólöglegri eða ósiðlegri hegðun

1707132

Lagt fram frá félags- og tómstundanefnd leiðbeiningar um viðbrögð starfsmanna við brotlegri/ósiðlegri hegðun í sundlaugum og öðrum íþróttamannvirkjum Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Nefndin hefur samþykkt leiðbeiningarnar fyrir sitt leiti.
Byggðarráð samþykkir fyrirliggjandi leiðbeiningar og vísar þeim til afgreiðslu sveitarstjórnar.

4.Skagfirðingabraut 17-21

1704022

Lagt fram verðmat á Skagfirðingabraut 17-21, fnr: 213-2118 frá Ágústi Guðmundssyni löggiltum fasteignasala. Húsið er alls 905 fermetrar. Eigendur hússins eru Sveitarfélagið Skagafjörður 63,48%, Byggðastofnun 35% og Akrahreppur 1,52%. Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar vill skoða hvort Byggðastofnun vilji selja Sveitarfélaginu Skagafirði sinn 35% hlut í húsinu.
Byggðarráð mun óska eftir að fá forstjóra Byggðastofnunar á fund ráðsins til viðræðna.

5.Kiwanishúsið

1709169

Sveitarfélagið Skagafjörður keypti fasteignina við Eyrarveg 14 fnr: 213-1397 af Kiwanisklúbbnum Drangey til flutnings árið 2013. Húsið hefur ekki verið fært ennþá og hefur nú Siglingaklúbburinn Drangey óskað eftir því að fá afnot af húsinu og það verði fært að núverandi smábátahöfn þar sem það fengi það hlutverk að styðja við uppbyggingu mannlífs við höfnina, tengdu frítíma og útivist, fræðslu og útikennslu og þjónustu er því tengdu og yrði í umsjá siglingaklúbbsins.
Byggðarráð samþykkir að húsið verði flutt og að veita Siglingaklúbbnum Drangey afnot af húsinu gegn því að öll tilskilin leyfi fáist.

6.SÍBS líf og heilsa styrkbeiðni

1709202

Hjartaheill, Samtök sykursjúkra, Samtök lungnasjúklinga og SÍBS í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Vesturlands munu bjóða íbúum á Norðurlandi Vestra ókeypis heilsufarsmælingu 16-18 október næstkomandi. Mælingarnar ná til helstu áhættuþáttta lífsstílssjúkdóma þar sem mældur er blóðþrýstingur, blóðsykur, blóðfita, súrefnismettun, mittismál og styrkur. Jafnframt gefst þátttakendum kostur á að svara lýðheilsukönnun. Hjúkrunarfræðingur verður á staðnum og veitir ráðgjöf og eftirfylgd.
SÍBS óskar eftir styrk í verkefnið með stöku fjárframlagi 50 til 100 þúsund krónur.
Byggðarráð samþykkir að veita 50 þúsund krónur til verkefnisins.

7.Styrkbeiðni Neytendasamtökin

1709219

Lagt fram bréf frá Neytendasamtökunum með beiðni um styrk.
Byggðarráð þakkar fyrir erindið en sér sér ekki fært að verða við erindinu.

8.Beiðni um lækkun fasteignaskatts

1709242

Lögð fram umsókn dagsett 23. september 2017, frá stjórn Villa Nova ehf. um styrk til greiðslu fasteignaskatts skv. 2. mgr., 5. gr. laga nr. 4/1995. Byggðarráð samþykkir að veita styrk sem nemur 30% af fasteignaskatti ársins 2017 skv. 5. gr. reglna sveitarfélagins um styrki til greiðslu fasteignaskatts.

9.Friðlýsing Þjórsárvera

1710032

Lagt fram erindi frá umhverfis- og auðlindaráðherra um ákvörðun um stækkun friðlands í Þjórsárverum. Í kjölfar friðlýsingarinnar mun Umhverfisstofnun hefja undirbúning að vinnu við gerð stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið. Sú vinna mun fara fram í samvinnu við sveitarstjórnir á svæðinu í samræmi við ákvæði 81.gr.laga um náttúruvernd, nr. 60/2013.
Byggðarráð ítrekar við umhverfis- og auðlindaráðherra að höfð verði náin samvinna við sveitarfélögin.

10.Húsnæðisþing 2017

1710033

Mánudaginn 16. október 2017 standa Íbúðalánasjóður og velferðarráðuneytið fyrir fyrsta húsnæðisþinginu. Húsnæðisþingið verður haldið á Hilton Nordica við Suðurlandsbraut á milli 10:00 og 16:30.

Húsnæðisþingið er vettvangur umræðu og samstarfs í húsnæðismálum og mun þátttakendum gefast kostur á að spyrja þá sem koma að stjórnun húsnæðismála á Íslandi spurninga í pallborðsumræðum. Á þinginu verða meðal annars örinnlegg frá fólki sem þekkir húsnæðisvandann af eigin raun og fulltrúum þeirra sem eru að byggja húsnæði í dag. Þá verður fjallað um nýjar húsnæðisáætlanir sveitarfélaga og kynnt verður ný könnun um stöðu fólks á leigumarkaði ásamt fleiru.

Byggðarráð hvetur alla sveitarstjórnarfulltrúa sem eiga heimangengt að fara.

11.SSNV - haustþing 2017

1708054

Lögð fram dagskrá vegna haustþings SSNV sem verður haldið á Hvammstanga 20.október n.k. og hefst kl 9:30.

12.Umsagnarbeiðni vegna takmarkana á 7. gr laga um stjórn fiskveiða

1709245

Meðfylgjandi er beiðni frá Sjávarútvegsráðuneyti um umsögn vegna laga um stjórn fiskveiða. Umsögnin lýtur að beiðni Samtaka smærri útgerða um að bann við notkun annarra veiðarfæra en línu og handfæra við veiðar skv. krókaaflamarki verði aflétt. Telja samtökin bannið feli í sér mismunun þar sem útgerðir aflamarksskipa hafi getað skipt um veiðarfæri til að bregðast við breyttum aðstæðum.
Frestur er veittur til 16. okt. nk.
Þau sveitarfélög sem hyggjast veita umsögn eru beðin um að senda umsögn sína á hádegi 13. október í síðasta lagi.

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar leggst gegn breytingum á takmörkunum við notkun veiðarfæra við veiðar samkvæmt krókaaflamarki. Mikilvægt er viðhalda kerfi sem stuðlar að gæðum í meðförum afla og jákvæðri markaðssetningu. Breytingar á kerfinu kunna að leiða til aukinnar einsleitni í útgerð og fækkun starfa.

13.Samþykkt aðalfundar Drangeyjar, smábátafélags Skagafjarðar

1710044

Lagt fram til kynningar samþykkt aðalfundar smábátafélagsins Drangeyjar um að félagið leggist gegn því að opnað verði fyrir dragnótaveiðar á Skagafirði innan núverandi marka.

Fundi slitið - kl. 09:59.