Byggðarráð Skagafjarðar

563. fundur 18. ágúst 2011 kl. 09:00 - 10:50 í Ráðhúsi, Skr.
Nefndarmenn
  • Stefán Vagn Stefánsson formaður
  • Bjarni Jónsson varaform.
  • Jón Magnússon aðalm.
  • Sigurjón Þórðarson áheyrnarftr.
  • Þorsteinn Tómas Broddason varam. áheyrnarftr.
  • Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri
  • Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Umsögn um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða, 827. mál.

1106140

Lagður fram tölvupóstur frá nefndasviði Alþingis, þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða (heildarlög), 827. mál, sem er til umræðu í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis. Óskað er að umsögnin berist fyrir 20. ágúst 2011. Frestað erindi frá 562. fundi byggðarráðs.

Jón E. Friðriksson framkvæmdastjóri FISK-Seafood hf. kom til viðræðu undir þessum dagskrárlið og vék síðan af fundi.

Byggðarráð samþykkir svohljóðandi bókun:

"Mikilvægt er að kveðið sé á um það í lögum að nytjastofnar við Ísland séu í óskoraðri þjóðareign og að réttur sjávarbyggða og íbúa þeirra verði tryggður gagnvart nýtingu auðlindarinnar. Þá þarf að vera tryggt að atvinnugreininni sé búið nauðsynlegt rekstraröryggi ásamt því að gætt sé að hagkvæmnissjónarmiðum í þeirri umgjörð sem sjávarútvegi er búin af hálfu stjórnvalda.

Byggðaráð Skagafjarðar leggur áherslu á að ekki verði gerðar neinar þær breytingar á lögum er varða sjávarútveg, sem er ein mikilvægasta atvinnugrein héraðsins, er orðið geti til að veikja stöðu byggðalagsins. Grundvallar markmið lagabreytinga þarf að vera að styrkja veiðar og vinnslu í sjávarbyggðum og auka búsetuöryggi á svæðum sem byggja afkomu sína að stóru leiti á sjávarútvegi."

Sigurjón Þórðarson óskar bókað: "Fulltrúi Frjálslynda flokksins átelur stjórnvöld fyrir hversu óvandaður undirbúningur frumvarpsins er sem snýr að löggjöf og kerfi sem hefur fengið falleinkunn hjá Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna, þar sem kvótakerfið brýtur í bága við jafnræði borgaranna. Undirbúningur ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna fólst annars vegar í því að setja á fót svokallað sáttanefnd um sjávarútvegsmál sem í sátu að stærstum hluta fulltrúar hagsmunasamtaka sem hafa eða telja sig hafa hag að óbreyttu kvótakerfi og hins vegar var sett á fót nefnd sérfræðinga sem hafði það hlutverk að endurskoðaða líffræðilegar forsendur aflaráðgjafarinnar en í þeirri nefnd sátu að stærstum hluta fulltrúar hagsmunaaðila auk þeirra sérfræðinga sem bera ábyrð á og stýra þeirri nýtingarstefnu sem nefndin átti að endurskoða! Í stuttu máli þá ber frumvarpið með sér að framangreindur undirbúningur var ekki upp á marga fiska."

2.Umsögn um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða, 839. mál

1106141

Lagður fram til kynningar tölvupóstur frá nefndasviði Alþingis, þar sem óskað er umsagnar um frumvarp stjórn fiskveiða (uppboð aflaheimilda), 839. mál, sem er til umræðu í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis. Óskað er að umsögnin berist fyrir 20. ágúst 2011. Frestað erindi frá 562. fundi byggðarráðs.

3.Aðalfundur Gagnaveitunnar

1107104

Aðalfundur Gagnaveitu Skagafjarðar verður haldinn 25. ágúst 2011. Sveitarfélagið á rétt á að tilnefna einn fulltrúa sem varamann í stjórn félagsins.

Byggðarráð samþykkir að tilnefna Stefán Vagn Stefánsson sem fulltrúa sveitarfélagsins í varastjórn Gagnaveitu Skagafjarðar ehf.

4.Fjárhagsáætlun 2011 - endurskoðun

1108154

Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að sjá um að vinna við endurskoðun fjárhagsáætlunar ársins 2011 verði hafin og henni ljúki í september nk. Við endurskoðunina verður meðal annars litið til áhrifa verðbreytinga ársins á rekstur og efnahag, launabreytinga vegna nýrra kjarasamninga og áhrif á útsvar, samþykkta byggðarráðs og sveitarstjórnar á árinu um framkvæmdir og útgjöld sem ekki eru í fjárhagsáætlun ársins.

Sigurjón Þórðarson fulltrúi Frjálsyndra og óháðra álítur endurskoðunina tímaeyðslu, nú þegar átta mánuðir eru liðnir af árinu. Miklu nær væri að einbeita sér að aðgerðum sem geta orðið til þess að endar nái saman í rekstri sveitarfélagsins.

5.Reglur um launalaus leyfi starfsmanna

1108153

Lögð fram drög að reglum um launalaus leyfi starfsmanna ásamt tillögu að umsóknareyðublaði.

Byggðarráð samþykkir fyrirliggjandi drög að reglum um launalaus leyfi starfsmanna sveitarfélagsins.

6.Kænumót SÍL - umsókn um styrk

1108094

Lagt fram til kynningar bréf frá Siglingasambandi Íslands þar sem fram kemur að Lokamót kæna verður haldið á Sauðárkróki 3. september 2011 í samstarfi við Siglingaklúbbinn Drangey. Óskað er eftir stuðningi sveitarfélagsins til að halda mótið og boðað að fulltrúar mótshaldara munu hafa samband þegar nær dregur og kynna málið betur.

Byggðarráð tekur jákvætt í erindið.

7.Laugatún - Frágangur gangstétta

1106052

Lagt fram til kynningar bréf frá Búhöldum, húsnæðissamvinnufélagi (svf) varðandi frágang svæðis framan við húsin nr. 26-32 við Laugatún á Sauðárkróki. Fyrirliggjandi gögn sýna að engar breytingar hafi verið gerðar á hönnun götu og gangstéttar frá því að byggingarleyfi var gefið út á framangreindar lóðir.

Fundi slitið - kl. 10:50.