Byggðarráð Skagafjarðar

190. fundur 11. september 2002
Byggðarráð  Skagafjarðar
Fundur 190 - 11.09. 2002

 
Ár 2002, miðvikudaginn 11. september, kom byggðarráð saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagins í Ráðhúsinu kl. 1000.
            Mættir voru: Gísli Gunnarsson, Bjarni Jónsson og Gunnar Bragi Sveinsson
auk sveitarstjóra Ársæls Guðmundssonar.
 
DAGSKRÁ:
                 
1.            Erindi frá Sjávarleðri ehf. – Einar Einarsson kemur á fundinn
                 
2.            Beiðni um yfirlit yfir verklegar framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins
                 
3.            Umsókn um lækkun fasteignagjalda
                 
4.            Ársreikningur Menningarseturs Skagfirðinga, Varmahlíð
                 
5.            Yfirlit yfir framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna framkvæmda
                  við grunnskóla
 
AFGREIÐSLUR: 
1.      Einar Einarsson stjórnarmaður í Sjávarleðri ehf. kom á fundinn og ræddi hlutafjáraukningu í félaginu.
Byggðarráð samþykkir að fresta afgreiðslu málsins til næsta fundar og felur sveitarstjóra að afla frekari upplýsinga. 
2.      Gunnar Bragi Sveinsson leggur fram svohljóðandi tillögu um að sveitarstjóra verði falið að afla eftirfarandi gagna, þar sem um mikilvægar upplýsingar er að ræða er varða stefnu og stjórnsýslu sveitarfélagsins og því nauðsynlegt að sveitarstjórnarfulltrúar geti áttað sig á stöðu þessara mála.
·        Hvaða verktakar hafa haft samning við sveitarfélagið sl. þrjú ár til og með 1. september 2002 og í hverju felast verk þeirra?
·        Hvernig er staða þeirra verka þ.e. verklok skv. útboði/samningi og áætluð verklok m.v. 01.09. 2002?
·        Hvaða verktakar hafa farið yfir tímamörk um verklok sl. þrjú ár og hve langt fóru þeir yfir?
·        Í hve mörgum útboðnum verkum sl. þrjú ár hefur verið kveðið á um dagsektir og í hvaða tilfellum var þeim beitt?
·        Hve háar eru þær dagsektir sem kveðið er á um í útboðum verka sem unnið er að í dag, sundurliðað eftir verkum og verktökum.
·        Óskað er eftir upplýsingum um tíu stærstu birgja sveitarfélagsins.  Sérstaklega er óskað eftir sundurliðun á eftirfarandi þáttum þ.e. hvert fyrirtækið er, hvaða vörur eru keyptar af því og fyrir hve háar upphæðir sl. tvö ár.  Falli eftirtalin atriði ekki undir 10 stærstu birgja þá er sérstaklega farið fram á upplýsingar um þau:  Hreinlætisvörur/ræstivörur, prentun, pappírskaup, skrifstofuvörur oþh., matvara, tölvuþjónusta, þjónusta rafverktaka, þjónusta byggingarverktaka og þjónusta fyrirtæka í véla- og járnsmíði. 
3.      Sjá trúnaðarbók. 
4.      Ársreikningur Menningarseturs Skagfirðinga, Varmahlíð fyrir árið 2001 lagður fram til kynningar. 
5.      Lagt fram til kynningar bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, dagsett 9. júlí 2002, þar sem fram kemur að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur skv. meðfylgjandi yfirliti greitt alla sína kostnaðarþátttöku vegna endurbóta og breytingar á Árskóla.  Einnig segir í niðurlagi bréfsins að með tilvísun til hjálags yfirlits yfir normstærð sveitarfélagsins, hvað grunnskólarými varðar, og framkvæmdir, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 519 frá 30. september 1996 um lágmarksaðstöðu grunnskóla, er þátttöku Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í framkvæmdum við einsetningu grunnskólanna á Sauðárkróki lokið.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að skoða þetta mál ásamt skólamálastjóra. 
Fleira ekki gert, fundargerð upplesin og samþykkt, fundi slitið kl.1125