Atvinnu- og ferðamálanefnd

21. júní 2005
Atvinnu- og ferðamálanefnd Skagafjarðar
Fundur  – 21.06.2005
 
Atvinnu- og ferðamálanefnd Skagafjarðar, fundur í Ráðhúsinu á Sauðárkróki, þriðjudaginn 21.06.2005, kl. 13:00.
 
DAGSKRÁ:
1)      Hátæknisetur á Sauðárkróki
- Framhald verkefnisins
2)      Fiskeldisstöðin að Hraunum í Fljótum
- Staða mála og möguleikar
3)      Staðsetning Ferðamálastofu í Skagafirði
4)      Komur ferðamanna af skemmtiferðaskipum til Skagafjarðar
- Þorsteinn Broddason SSNV fer yfir stöðu mála
5)      Framfaramál í Fljótum
- Trausti Sveinsson á Bjarnargili kemur til fundar
6)      Háhraða tölvutengingar í Skagafirði
7)      Efling Hofsóss sem smábátaverstöðvar
8)      Önnur mál
 
AFGREIÐSLUR:
 
1.  Hátæknisetur á Sauðárkróki
Nefndin fór yfir framhald verkefnis um uppbyggingu hátækniseturs á Sauðárkróki og skýrslu Sveins Ólafssonar eðlisfræðings um skipulag og hugmyndir til Atvinnu- og ferðamálanefndar. Skýrsla og hugmyndir um hátæknisetur á Sauðárkróki hafa verið kynntar fyrir Byggðaráði og Sveitarstjórn. Atvinnu- og ferðamálanefnd telur að breið samstaða sé innan sveitarstjórnar um að halda áfram með verkefnið. Því beinir nefndin eftirfarandi tillögu til sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar:
 
“Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkir að vinna að uppbyggingu hátækniseturs á Sauðárkróki á forsendum þeirra hugmynda sem fram koma í skýrslu Sveins Ólafssonar um hátæknisetur. Sveitarstjórn felur atvinnu og ferðamálanefnd að vinna áfram að málinu í samvinnu við Byggðaráð sem hefji þegar viðræður við mögulega samstarfsaðila með það að markmiði að verkefnið fari formlega af stað í haust.”
 
2.  Fiskeldisstöðin að Hraunum í Fljótum
Ólafur Ögmundarson og Hrund Pétursdóttir komu til fundar og kynntu úttekt á möguleikum til að hefja bleikjueldi í fiskeldisstöðinni að Hraunum. Ljóst er að möguleikarnir eru til staðar og að hægt væri að framleiða umtalsvert magn af bleikju í stöðinni. Forsendur fyrir rekstri slíkrar stöðvar eru þó að sterkir aðilar í fiskeldi komi að og hagstætt verð fáist fyrir afurðir og að viðunandi kjör og hagstætt verð fáist við kaup á fóðri, rafmagni og öðrum aðföngum. Einnig þarf að kanna betur mögulega vatnstöku til eldisins og ástand stöðvarinnar.
  
3.  Staðsetning Ferðamálastofu í Skagafirði
Ný lög frá Alþingi um skipan ferðamála voru samþykkt í maí síðastliðnum. Lögin eru um margt metnaðarfull og styrkja grunn ferðaþjónustunnar sem vaxandi atvinnuvegar. Eitt af þeim nýmælum sem er að finna í lögunum er að sett verði á stofn Ferðamálastofa sem sjái m.a um þróunar-, gæða- og skipulagsmál ferðaþjónustu, markaðs- og kynningarmál ásamt útgáfu leyfa og eftirlit.
Atvinnu- og ferðamálanefnd telur Skagafjörð mjög ákjósanlegan fyrir staðsetningu Ferðamálastofu. Mjög öflugt uppbyggingarstarf hefur verð unnið í ferðaþjónustu í héraðinu, Skagafjörður er vel staðsettur gagnvart starfsemi á landsvísu og héraðið er miðstöð rannsókna og þróunarstarfs í ferðaþjónustu. Atvinnu- og ferðamálanefnd samþykkir því að óska eftir viðræðum við fulltrúa Samgönguráðuneytisins um mögulega staðsetningu Ferðamálastofu í Skagafirði.
 
4.  Komur ferðamanna af skemmtiferðaskipum til Skagafjarðar
Þorsteinn Broddason SSNV kynnti bráðabirgðaúttekt á möguleikum Skagafjarðar gagnvart þjónustu við ferðamenn af skemmtiferðaskipum. Nefndin er sammála um að vinna áfram að málinu.
 
5.  Framfaramál í Fljótum
Trausti Sveinsson kynnti fyrirhugaða stofnun félags um framfaramál í Fljótum. Sérstök áhersla verður lögð á atvinnumál og eflingu félagsauðs. Mikilvægt er að bæta hafnaraðstöðu í Haganesvík. Slíkt er forsenda þess að efla smábátaútgerð í Fljótum auk þess sem betri aðstaða mun verða fyrir ferðaþjónustu og skotið verður styrkari stoðum undir sumarhúsabyggð á svæðinu. Einnig er mikilvægt að kannað verði til þrautar hvort að hægt er að koma aftur á stað fiskeldi í fiskeldisstöðvunum að Hraunum og Lambanesreykjum. Stöðin á Lambanesreykjum hefur verið auglýst til sölu og er óvíst hvað um hana verður. Mörgu fleira er nauðsynlegt að taka á í atvinnumálum í Fljótum.
 
6.  Háhraða tölvutengingar í Skagafirði
Atvinnu- og ferðamálanefnd fagnar undirritun viljayfirlýsingar á milli Fjölnets og Orkuveitu Reykjavíkur um samvinnu varðandi framboð á efni sem dreift yrði um ljósleiðaranet Fjölnets á Sauðárkróki. Hér er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir Skagfirðinga. Upphaf málsins má rekja til fundar sem forsvarsmenn Orkuveitu Reykjavíkur áttu á Sauðárkróki með forsvarsmönnum Sveitarfélagsins Skagafjarðar í vetur og viðræðna sviðsstjóra Markaðs- og þróunarsviðs við Orkuveituna í framhaldi af þeim fundi. Þá var einnig rædd möguleg aðkoma Skagafjarðarveitna að slíku verkefni.
 
7.  Efling Hofsóss sem smábátaverstöðvar
Hugmyndir um eflingu Hofsóss sem smábátaverstöðvar hafa verið kynntar fyrir Byggðaráði og Sveitarstjórn og eru til umfjöllunar hjá Samgöngunefnd. Mjög góðar undirtektir hafa verið varðandi framhald verkefnisins. Atvinnu- og ferðamálanefnd samþykkir því að halda áfram vinnu með það að markmiði að efla Hofsós sem smábátaverstöð.
 
8.  Önnur mál voru engin
 
Fundargerð upplesin og samþykkt
Fundinn sátu: Gísli Sigurðsson, Bjarni Jónsson, sem ritaði fundargerð, og Þorsteinn Broddason SSNV. Jón Garðarsson var forfallaður og sömuleiðis varamaður hans, María Sævarsdóttir.