Staðarbjargavík

Staðarbjargavík á Hofsósi

Skagafjörður fékk úthlutaðan styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir hönnun á betra aðgengi í Staðarbjargavík. Hönnun og útfærsla verkefnisins er í höndum arkitektastofunnar Landform. Unnið er að deiliskipulagi fyrir svæðið og er sú vinna í höndum Stoð ehf. Í þeirri vinnu gefst íbúum og öðrum hagaðilum kostur á að koma með athugasemdir þegar að skipulagslýsing er klár. Sótt var um styrk fyrir framkvæmdum í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða í október sl. og má búast við svari frá sjóðinum í apríl 2024. 

Nánar um verkefnið

Staðarbjargavík er náttúruperla staðsett við fjöruna á Hofsósi í Skagafirði. Þangað sækir mikið af ferðamönnum, sem fjölgar stöðugt á milli ára. Aðkoma að Staðarbjargavík er frá bílastæðinu við hina fjölsóttu Sundlaug á Hofsósi og niður langan stiga sem kominn er á tíma og þarfnast nauðsynlegra úrbóta til þess að tryggja öryggi ferðamanna. Þegar komið er niður í víkina blasir við fagurt stuðlabergið. Þar er átroðningur orðinn sjáanlegur vegna fjölda ferðamanna sem sækja staðinn ár hvert. Engir útsýnispallar eru við stuðlabergið, heldur getur ferðafólk gengið ofan á stuðlaberginu eins og svæðið er í dag. Sótt er um í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða fyrir undirbúnings- og hönnunarvinnu á útsýnispöllum og stiga. Tilgangur verkefnisins er að bæta aðgengi ferðamanna að staðnum, tryggja öryggi þeirra og að vernda þetta náttúruundur fyrir skemmdum vegna átroðnings með því að stýra umferð á útsýnispalla í stað þess að gengið sé á berginu.

Hönnunartillaga

- Yfirlitsmynd - Staðarbjargavík

Bætt aðkoma að Staðarbjargavík
Samkvæmt Aðalskipulagi Skagafjarðar 2020-2035 er Staðarbjargavík hverfisvernduð (HV-602), þ.e.stuðlabergsklettar í Staðarbjargavík. Í upphafi voru gerðar 3 grófar tillögur og haft samráð um þær með kynningu fyrir áhugaaðilum í Höfðaborg 12. sept. sl. Tillaga byggir auk þess á 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Stuðlabergið er gert aðgengi- og sýnilegra og raskar á engan hátt hinni hverfisvernduðu náttúrusmíð.
Aðkoma og göngustígar:
Frá bílastæði við sundlaug eða Hofsósskirkju leiðir aðalstígur að Staðarbjargavík. Lagt er til að stígurinn verði 2m breiður að Ú1 og Ú4 og aðgengilegur fyrir alla. Halli stígsins að Ú1 er um 1:20 eða 5%. Á stíg næst Ú1 koma hellur úr stuðlabergi á stangli, umhverfislist í þéttbýli.
Útsýnisstaðir:
Ú1; hellulagt torg með stuðlabergsstólpum. Bekkur og
skilti um náttúrufar, jarðfræði, örnefni ofl.
S1; tröppustigi í skjóli við fremsta hluta brekku, stáltrappa
ofan við landið, steyptar undirstöður.
Útsýnispallur, Ú2; um 16m² pallur úr stáli, st. undirstöður,
burðarbitar úr járni og gólf ristaefni. Allt efnisval miðast við
að vera sem mest viðhaldsfrítt. Setbekkur og handrið í
úthring.
S2; tröppustigi, sama gerð og S1. Trappan leiðir inn á
stóran flöt stuðlabergs sem frá náttúrunnar hendi er eins
og stórt listaverk. Með stærri náttúrufarsundrum af
þessum toga, þ.e. stuðlagbergsklöpp, sem skoða má á
Íslandi.
Ú3; raskað klapparsvæði hreinsað af lífrænum jarðvegi og
undirliggjandi stuðlaberg gert sýnilegt.

Í brekkufót komi stoðveggur úr stuðlabergi til varnar
jarðskriði og hluti hans með áföstum setbekk úr timbri. Á
frambrún mót hafi komi léttur handlisti með tveim
þverslám til öryggis fyrir ferðamenn.
Ú4; Svipuð lausn og við Ú1. Áningarstaður í þéttbýli með
góða yfirsýn yfir víkina og Skagafjörð.

Fréttir af verkefninu - stöðuuppfærslur - uppfært 21. febrúar

21. febrúar 2024 - Skipulagslýsing samþykkt af sveitarstjórn Skagafjarðar á 23. fundi sveitarstjórnar og samþykkt að senda hana Skipulagsstofnun til umsagnar. Einnig að skipulagslýsingin verði kynnt almenningi.

8. febrúar 2024 - Skipulagslýsing lögð fram á 43. fundi Skipulagsnefndar. Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja skipulagslýsinguna.

29. janúar 2024 - Vinna við deiliskipulag hófst í síðustu viku og er stefnt á að hún klárist í lok júlí. Þegar að skipulagslýsing er klár fer hún í auglýsingu og aðilum gefst tækifæri á að koma með athugasemdir. Vinna við deiliskipulag er í höndum Stoð ehf.

16. október 2023 - Umsókn send inn í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða fyrir framkvæmd verkefnisins. Áætlaður kostnaður við framkvæmdir eru um 55 milljónir króna.

 

Senda inn ábendingu

Hægt er að senda inn ábendingu varðandi hönnunarferlið með því að smella á hnappinn hér að neðan. 

Senda inn ábendingu

Tímalína verkefnis

Myndir

Smelltu á myndina hér fyrir ofan til að sjá fleiri hönnunarmyndir. Einnig er hægt að smella hér Staðarbjargavík

 

Myndband með hönnunartillögu