Sæluvika Skagfirðinga

Sæluvika er lista- og menningarhátíð í Skagafirði. Metnaðarfull dagskrá Sæluviku stendur yfir í viku og hefst hún síðasta sunnudag í apríl ár hvert.

Upphaf Sæluviku má rekja til hátíðar á Reynistað þann 2. júlí árið 1874, en sama ár var Íslendingum færð stjórnarskrá og var fagnað í Skagafirði sem og annarsstaðar á landinu. Þennan dag var haldin mikil matarveisla í Espihólsstofu á Reynistað, en fram af henni var reist stórt tjald, þar sem fjöldi manns komst fyrir. Rætt um ýmis þjóðþrifamál og er líða tók á daginn hófust dans- og söngskemmtanir sem stóðu fram á nótt. Má segja að þarna hafi verið lagður grunnur að skemmtanahaldi sem þróaðist næstu áratugina. Þann 8. október sama ár boðaði Eggert Briem, sýslumaður, til fyrsta sýslufundarins á Reynistað. Upp frá því voru skemmtanir haldnar í tengslum við sýslufundina. Fundurinn var haldinn á Sauðárkróki árið 1886 og hefðin um skemmtiviku og héraðshátíð mótaðist. Í daglegu tali var vikan nefnd Sýslufundarvika, en orðið Sæluvika hefur verið orðið tungutamt í kringum 1920, en það sást fyrst á prenti árið 1917. Lengst af var sýslufundur haldinn í febrúar, en síðan 1995 hefur Sæluvikan verið fastsett í lok apríl ár hvert.

Heimasíða Sæluviku er www.saeluvika.is, en þar er m.a. haldið utan um alla viðburði í Sæluviku.