Fara í efni

Vor í lofti

19.05.2017
Börnin á Birkilundi heimsækja safnið í Glaumbæ. Mynd Byggðasafn Skagfirðinga

Nú er vor í lofti og spáð góðu veðri um helgina eftir þetta stutta kuldakast sem búið er að vera síðustu daga. Senn líður að skólaslitum og eru nemendur og starfsfólk skólanna á faraldsfæti þessa dagana í vorferðalögum og útskriftir eru hafnar.

10. bekkir Árskóla og Varmahlíðarskóla eru nú staddir í Danmörku í sinni árlegu útskriftarferð en yngri bekkirnir fara í styttri ferðir og þau yngstu í heimsókn í sveitina. Í Varmahlíðarskóla eru haldnir sveitadagar að vori þar sem hefðbundið skólastarf er brotið upp og nemendur vinna hin ýmsu störf í sveitinni. Árskóladagurinn var 6. maí þar sem nemendur og starfsfólk skólans voru með opið hús og kynntu skólann sinn og gleðigangan verður 31. maí. Nemendur Grunnskólans austan Vatna héldu sinn árlega Sólgarðadag 27. apríl þar sem nemendur og starfsfólk starfsstöðvanna þriggja komu saman og gerðu sér glaðan dag og skólinn fékk afhentan Grænfánann í fjórða sinn þetta árið.

Útskriftirnar eru hafnar og var það leikskólinn Birkilundur sem fyrstur útskrifaði sína elstu nemendur í gær við hátíðlega athöfn en meðfylgjandi mynd er af elstu börnunum á Birkilundi sem fara alltaf í vorheimsókn í safnið í Glaumbæ. Útskrift úr Ársölum verður 30. maí en engin útskrift er úr Tröllaborg þetta  árið því enginn nemandi er í þeim árgangi. Útskrift í Varmahlíðarskóla verður 26. maí, Grunnskólanum austan Vatna 29. maí og Árskóla 1. júní.