Fara í efni

SamFestingurinn og Söngkeppni Samfés um helgina

24.03.2017

Rúmlega 50 unglingar frá Félagsmiðstöðinni Friði í Skagafirði halda til Reykjavíkur í dag á SamFestinginn, stærstu unglingaskemmtun landsins sem fram fer í Laugardalshöll 24.-25. mars. Þetta er í þrettánda sinn sem SamFestingurinn er haldinn með því sniði að á föstudagskvöldi er ball og á laugardeginum Söngkeppni Samfés.

Á Söngkeppninni gefst unglingum kostur á að koma fram á stóra sviðinu og syngja fyrir framan jafnaldra sína alls staðar að af landinu. Undankeppnir hafa farið fram í öllum landshlutum og þrjátíu atriði verið valin til þátttöku. Það má því með sanni segja að efnilegustu söngvarar og söngkonur landsins komi fram á Söngkeppni Samfés.

Rannveig Sigrún Stefánsdóttir, nemandi í Árskóla, komst áfram í undankeppninni sem haldin var á Dalvík fyrr í vetur og er hún ein af þrjátíu keppendum í Söngkeppni Samfés. Keppnin verður sýnd í beinni útsendingu á RÚV og hefst kl. 13:00. Rannveig Sigrún er önnur í röðinni að stíga á svið á morgun.

SamFestingurinn er án efa stærsti vímulausi viðburðinn af þessu tagi sem haldinn er á Íslandi. Í Laugardalshöllina mæta um 4.500 unglingar á aldrinum 13-16 ára (efstu bekkir grunnskólans) eða um 30% unglinga landsins, alls staðar að af landinu.