Fara í efni

Opnun Iðju við Sæmundarhlíð

29.04.2016
Fjölmenni var við formlega opnun Iðjunnar í nýju húsnæði

Iðjan, dagvist fyrir fatlað fólk, var formlega opnuð í nýju húsnæði við Sæmundarhlíð í gær. Nýja húsnæðið er bjart og rúmgott og eru bæði notendur Iðjunnar og starfsfólk mjög ánægt með flutningana.

Fjölmenni var við opnunina og margir velunnarar sem komu færandi hendi. Forstöðumaður Iðjunnar Jónína Gunnarsdóttir tók góða andann, sem ríkt hefur í gamla húsnæði Iðjunnar, með í nýja húsnæðið í poka og hleypti honum út á táknrænan hátt við opnunina.

Húsnæðið var upphaflega byggt sem leikskólinn Furukot en starfsemi hans var hætt þegar Ársalir opnuðu í ágúst 2010.

Hönnun og frumdrög að teikningum fyrir Iðjuna í nýja húsnæðinu hófust árið 2013 og þá var einnig unnið að þarfagreiningu og var m.a. farið í heimsóknir á aðra staði til að kanna aðstæður.

Það var svo í fyrra sem þráðurinn var tekinn upp aftur  og hófust framkvæmdir í júní. Varið var 41 milljón kr í endurbætur á húsnæðinu árið 2015 og á fjárhagsáætlun 2016 er gert ráð fyrir 5 milljónum. Áætlað er að endanlegur kostnaður verði um 50 milljónir kr.

Eignasjóður Sveitarfélagsins Skagafjarðar hafði umsjón með verkinu en margir undirverktakar hafa komið að framkvæmdum og ekkert til sparað. Hönnun og aðgengi var unnið í nánu samráði við notendur og starfsfólk húsnæðisins. Enn á eftir að klára frágang á lóðinni, lagfæra utanhúsklæðningu, gler og glugga.