Fara í efni

Gróðursetning í Þuríðarlundi til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur

22.07.2015
Ragnheiður og Sigríður

Í tilefni þess að 35 ár eru liðin frá því að Vigdís Finnbogadóttir var kjörin í embætti forseta Íslands, fyrst kvenna í heiminum sem þjóðkjörinn forseti, voru gróðursettar þrjár birkiplöntur í Þuríðarlundi henni til heiðurs. Um þetta verkefni sameinast Skógræktarfélag Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga meðal annarra.

Það voru Sigríður Svavarsdóttir forseti sveitarstjórnar sveitarfélagsins og Ragnheiður Guðmundsdóttir formaður Skógræktarfélags Skagfirðinga sem gróðursettu plönturnar og nutu aðstoðar Ástu Pálmadóttur sveitarstjóra.

Birkitrén sem gróðursett voru eru af hinu beinvaxna og hvítstofna yrki 'Emblu' sem er afurð kynbótastarfs áhugasamra manna undir forystu Þorsteins Tómassonar. Trén eru hátt á annan metra að hæð og verða án efa til mikillar prýði.

Þuríðarlundur er í skógrækt Skógræktarfélags Skagfirðinga í Reykjarhól, Varmahlíð.