Fara í efni

Gott gengi Skagfirðinga í stærðfræðikeppni

26.04.2017
Keppendurnir í stærðfræðikeppninni. Mynd GK Menntaskólinn á Tröllaskaga.

Úrslit stærðfræðikeppni Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Menntaskólans á Tröllaskaga og 9. bekkja grunnskóla á Norðurlandi vestra fór fram í Ólafsfirði í gær, 25. apríl. Þetta er í 20. sinn sem keppnin er haldin. Stærðfræðikennarar framhaldsskólanna sjá um að semja og fara yfir keppnisgögn, en grunnskólarnir sjá um fyrirlögn í undankeppninni sem fram fór í mars.

Fimmtán nemendur komust áfram í úrslitakeppnina, þar af fjórir nemendur úr Árskóla, einn úr Varmahlíðarskóla og einn úr Grunnskólanum austan Vatna.

Fyrsta sæti hlaut Hildur Heba Einarsdóttir í Árskóla. Jódís Helga Káradóttir í Varmahlíðarskóla varð í öðru sæti og Styrmir Þeyr Traustason í Dalvíkurskóla í því þriðja. Sigurvegarar fengu vegleg verðlaun en keppnin var jöfn og spennandi. Að sögn skipuleggjenda voru keppendur allir sjálfum sér og skólum sínum til sóma.

Við óskum keppendum til hamingju með árangurinn.