Fara í efni

Fjölmenningardagar í Ársölum

03.02.2016
Fjölmenningardagar í Ársölum

Nú standa yfir fjölmenningardagar í leikskólanum Ársölum sem hófust á bóndadaginn 22. janúar með árlegu þorrablóti. Þessa daga er þeim löndum sem börnin eru frá gert hátt undir höfði en börn af 13 þjóðernum, auk Íslands, eru í Ársölum þ.e.a.s. börnin eða foreldrar þeirra koma frá þessum löndum. Hverju landi fyrir sig er tileinkaður hádegismaturinn þessa daga.

Allar deildir leikskólans fengu afhenta þjóðfána landanna 14 til að hengja upp á vegg og voru nöfn barnanna sett undir viðeigandi fána. Börnin fá að lita fána á deildunum sínum og syngja „meistari Jakob„ á tungumálunum. Allt er þetta útfært á mismunandi hátt milli deilda eftir aldri og þroska barnanna. Foreldrar og börn eru hvött til að koma með hluti frá sínu landi til að sýna eða segja frá. Þess má geta að einn starfsmaður leikskólans er frá Póllandi. Þorrablót í Ársölum

Samverustundir á föstudögum eru helgaðar fjölmenningunni þessa daga þar sem þorralögin eru sungin hástöfum en þau má finna á heimasíðu leikskólans ásamt „meistari Jakob„ á nokkrum tungumálum og einnig „góðan dag„ laginu og „mínání, kúldání„ sem er söngur á leynimáli.  Búið er að setja saman texta á tungumálum barnanna úr „góðan daginn„ laginu.

Fjölmenningardagarnir í Ársölum eru nú haldnir í þriðja sinn og eru þeir komnir til að vera segir leikskólastjóri Ársala.