Fara í efni

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar leggst gegn áfengisfrumvarpi

23.03.2017
Mynd úr Skagafirði

Á fundi byggðarráðs í morgun var lagt fram bréf dagsett 20. mars 2017 frá Ungmennasambandi Skagafjarðar þar sem stjórn sambandsins skorar á sveitarfélagið að fara að dæmi nokkurra annarra bæjar- og sveitarfélaga og mótmæla opinberlega frumvarpi sem er til umræðu á Alþingi um breytingar á lögum um verslun með áfengi og tóbak og leggjast gegn því.

Í fundargerð byggðarráðs segir:

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar vill beina því til þingmanna að beita sér gegn því frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi um afnám einkaleyfis Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis og heimilar áfengisauglýsingar og hafnar því alfarið.

Fjöldi fagaðila, þ.m.t. Landlæknir, samtök lækna og heilbrigðisstarfsfólk, hefur stigið fram í kjölfar framlagningar frumvarpsins og mótmælt. Þessir aðilar sem allir vinna að heilsueflingu og velferðarmálum hafa m.a. bent á að rannsóknir sýna að aukið aðgengi að áfengi, sem verður með mikilli fjölgun sölustaða, leiðir til aukinnar neyslu, meðal annars meðal barna og ungmenna. Við ákvarðanir sem þessar ber ráðamönnum að hlusta á fagaðila sem og almenning en kannanir sýna að meirihluti almennings er á móti framkomnu frumvarpi.

Grettistaki hefur verið lyft er kemur að forvörnum á Íslandi á undanförnum árum, sérstaklega forvarnir er vinna gegn ávana- og vímuefnaneyslu barna og ungmenna. Sveitarfélagið Skagafjörður hefur lagt mikla áherslu á forvarnarstarf og er svo komið að áfengis- og vímuefnaneysla barna og ungmenna í Sveitarfélaginu Skagafirði hefur stórlega dregist saman og því mikilvægt að þeim góða árangri í forvörnum verði áfram viðhaldið en aukið aðgengi að áfengi og áróður í formi áfengisauglýsinga gengur gegn hugmyndum um forvarnir.

Hugmyndir sem ganga gegn lýðheilsusjónarmiðum og fara þvert gegn ráðgjöf sérfræðinga geta ekki verið farsælar fyrir íslenskt samfélag.

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar leggst gegn framkomnu frumvarpi.