Fara í efni

Alþjóðlegi safnadagurinn

15.05.2017
Baðstofan í Glaumbæ

Í tilefni af alþjóðlega safnadeginum, fimmtudaginn 18. maí, verður gestum boðið að skoða gamla bæinn í Glaumbæ án endurgjalds. Bærinn verður opinn frá kl. 10-16. Frá 14-16 verður stemning í baðstofunni, kveðnar stemmur, ýmis handbrögð sýnd og börnum kenndir leikir eins og í gamla daga.  

Glaumbær er torfríkasti bær landsins. Skýringin er sú að grjót í veggjahleðslu er vart að finna í Glaumbæjarlandi, en torfrista er góð. Það má sennilega fullyrða að hvergi í veröldinni sé torf notað í jafnmiklum mæli í jafn stóra byggingu eins og í Glaumbæ. Veggirnir eru hlaðnir úr klömbrum, sniddu og streng. Rekaviður og innfluttur viður eru í grindum og þiljum. Bæjarhúsin eru misgömul að efni og gerð því menn byggðu húsin eftir því hvort þörf var á stærri eða minni húsum er kom að endurnýjun.